141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagt fjárlagafrumvarp en ég get ekki tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að það verði létt verk að verja það. Það er ljóst að í mínum huga annars vegar og huga hæstv. fjármálaráðherra er grundvallarmunur á því hvernig nálgast á fjárlög.

Í mínum huga er það undirstaða velferðar að hér sé öflugt atvinnulíf í höndum einstaklinga og fyrirtækja, öflugt atvinnulíf sem býr við stöðugt skattumhverfi. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði áðan í ræðu sinni að fyrirtækin hefðu verið svo löskuð að ekki hafi verið hægt að drífa þau af stað og koma til aukins vaxtar til að auka tekjur. Þessi löskuðu fyrirtæki var engu að síður hægt að skattleggja og er enn þá hægt að skattleggja og ég held að þar grundvallist munurinn í það minnsta á milli mín og margra annarra hægri manna og vinstri manna á því hvernig nálgast eigi fjárlögin. Það á að búa til umhverfi sem eflir atvinnulífið en drepur það ekki í dróma. Það hefur þessi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gert frá upphafi. Hún hefur hindrað og staðið í vegi fyrir öflugu atvinnulífi og hún hefur skattlagt atvinnulífið úr hófi fram að mínu mati.

Hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarliðar hafa áhyggjur af skuldastöðunni og vaxtagreiðslum ríkisins og það er eðlilegt. Eins og hér hefur margoft komið fram eru vaxtagreiðslur ríkisins 15% af útgjöldum ríkisins og verða 370 milljarðar á árunum 2013–2016. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir halla ríkissjóðs og áhyggjur af vaxtagreiðslum ætlar ríkisstjórnin á sama tíma að auka útgjöld á ýmsum sviðum.

Virðulegur forseti. Ég sagði síðastliðið haust þegar við ræddum fjárlagafrumvarpið og líka eftir áramótin eftir að fjárlagafrumvarpið hafði verið samþykkt, að umræður í þinginu segðu manni að fjárlagafrumvarps ársins 2013 væri kosningafrumvarp og það er svo sannarlega rétt. Þannig er það. Það kemur hvergi fram í þessu fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra hvernig eigi að takast á við vanda Íbúðalánasjóðs eða hvernig eigi að nálgast vandann vegna lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að innborgun til aðstoðar Íbúðalánasjóði kæmi sem eign fyrir ríkið á móti, tilfærsla á peningum. Það er engu að síður sérkennilegt að leggja það fram þannig vegna þess að á sama tíma hefði kannski verið hægt að nýta þá peninga sem þarf að leggja í Íbúðalánasjóð á annan hátt.

Í frumvarpinu eru nefndar sérstakar tekjuaðgerðir á árunum 2013–2016. Á bls. 45 stendur, með leyfi forseta: „Er þá miðað við þær tekjur sem ekki eiga sér stað í núgildandi lögum“. Það er því ljóst að hér verða lögð fram frumvörp sem festa í sessi nýjar breytingar væntanlega eða festa í sessi orkuskatt og kolefnisgjald þrátt fyrir að þessir skattar hafi átt að falla niður á árinu 2013. Það stendur einnig að á árinu 2014 sé gert ráð fyrir nýrri og varanlegri ótilgreindri tekjuöflun. Það verður fróðlegt að heyra hvað menn sjá í raun og veru fyrir sér með þeirri nýju tekjuöflun. Við erum að festa í sessi skatta sem lofað var að ættu að hverfa. Það er kannski í sjálfu sér ekkert nýtt vegna þess að það eru æðimargar ríkisstjórnir sem hafa lagt á tímabundna skatta sem sjaldnast eða aldrei hafa verið felldir niður. Ég held að það hljóti líka að vera umhugsunarefni.

Hér segja hv. stjórnarliðar að að baki þessum tölum sem fjárlagafrumvarpið byggir á, sé fólk, Það er rétt. Það sem fólkið í landinu hefur kallað eftir er ákveðið öryggi fyrir sig og sínar fjölskyldur. Öryggi fjölskyldna felst í því að hafa vinnu og atvinna er grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð. Öflugt atvinnulíf er grundvallaratriði fyrir íslenska þjóð, fyrir öryggi fjölskyldna og fyrir auknar tekjur inn í ríkissjóð, það er ekki alltaf leið til að hækka skatta hvort heldur er á fólk eða fyrirtæki.

Fjárfestingar á Íslandi í dag eru í sögulegu lágmarki. Hvers vegna? Vegna þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur staðið í vegi fyrir uppbyggingu og fjárfestingum á Íslandi. Það fást ekki fjárfestingar í landi með óstöðugt skattumhverfi, þegar fólk veit ekki í dag hvað það á að greiða í skatt á morgun. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum sem þessi ríkisstjórn sem og aðrar ríkisstjórnir þurfa að hafa í huga.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að almannahagsmunir hefðu verið teknir fram yfir sérhagsmuni. Eru það almannahagsmunir að hindra fjárfestingu á Íslandi og skattleggja atvinnulífið eins og gert er? Eru það almannahagsmunir eða eru það sérhagsmunir ríkisstjórnar ef svo ber undir? Er það langtímalausn að draga úr fjárfestingum og koma í veg fyrir fjárfestingar eða er það skammtímalausn? Virðulegi forseti. Í mínum huga eru hagsmunir almennings ekki hafðir að leiðarljósi í fjárlagafrumvarpinu og engar lausnir til langtíma.

Hins vegar vil ég taka fram að það er ýmislegt engu að síður, svo því sé haldið til haga, sem þessi ríkisstjórn hefur lagt sig í líma við að vinna vel úr og hefur tekist, en að byggja upp öflugt atvinnulíf sem undirstöðu velferðar hefur þessi ríkisstjórn ekki gert, því miður.

Það er líka svolítið sérkennilegt, virðulegur forseti, að þegar það hentar er Ísland borið saman við lönd eins og hin svokölluðu PIGS-lönd og sagt að Ísland hafi staðið sig betur í að reisa sig úr lægð eftir hrun en þau, án þess að þessi þjóð eigi nokkuð í raun og veru sameiginlegt með þeim, hvorki í menningu né öðru. Þá dugar ekki samanburður við Norðurlöndin vegna þess að við höfum ekki unnið okkur út úr kreppu á sama hátt og Norðurlöndin gerðu. Það fengum við að heyra hjá ágætum sósíaldemókrata í ársbyrjun 2009, Göran Persson sem lagði línurnar en þessi ágæta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fór eiginlega þvert gegn því sem sá ágæti maður sagði. Hafði hann þó töluverða reynslu af því að fást við kreppu í heimalandi sínu, Svíþjóð, á 10. áratugnum.

Virðulegur forseti. Fram til þessa í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið gífurlegt ósamræmi á milli fjárlaganna annars vegar og síðan samþykkt fjárlaganna og útkoma ríkisreiknings þar á milli. Því hefur í raun aldrei verið svarað af hverju þetta er. En við getum velt fyrir okkur þeim tilfærslum á fjármunum sem verið er að gera eins og nú árið 2012 þegar ljóst er hvað fellur á ríkissjóð vegna SpKef. Þá á að færa það í ríkisreikning ársins 2011. Þetta er að mínu mati leikur að tölum til að fegra eitt árið og sverta annað, ef við getum orðað það svo.

Í grundvallaratriðum ber ég ekki sömu von í brjósti og hæstv. fjármálaráðherra að það verði létt og auðvelt verk að fylgja eftir þessu fjárlagafrumvarpi. Mér segir svo hugur um að það muni taka breytingum í meðförum fjárlaganefndar, en engu að síður er það ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem ber ábyrgð (Forseti hringir.) á fjárlagafrumvarpinu og þeirri stöðu sem ríkisfjármálin eru í í dag. Hún getur ekki varpað skuldinni á aðra hvað það varðar.