141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á erfitt með að láta þessar fullyrðingar hanga í loftinu án þess að veita þeim andsvar. Ég spyr hv. þingmann hvort vera megi að fjárfestingarverkefni sem nú eru í pípunum og fyrirtæki sem skoðað hafa fjárfestingartækifæri hér á landi, meðal annars þau sem byggja á orkufrekum iðnaði, hafi ekki farið í gang vegna efnahagsástands í löndunum í kringum okkur. Er hugsanlegt að eigendur þessara fyrirtækja segi satt og rétt frá þegar þeir segja: Við viljum vera áfram í viðræðum við Íslendinga en við munum ekki fara af stað með verkefnin fyrr en efnahagsástandið í kringum okkur hefur lagast?

Ég hef að vísu bara verið níu mánuði í þessari ríkisstjórn en ég kannast ekki við að þar séu menn andsnúnir því að búa til atvinnutækifæri. Þvert á móti er unnið að því daga og nætur að finna út hvernig hægt er að ýta undir hagvöxt hér á landi og er fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar einmitt gott dæmi um það.

Undirstaðan er að hluta til nýtt, þ.e. gjald af umframhagnaði í sjávarútvegi sem sannarlega hefur notið góðs af falli krónunnar, en það var einmitt vegna falls hennar sem tekjur ríkissjóðs drógust saman. Þarna getum við því bætt um betur og styrkt innviðina með því að nýta auðlindir þjóðarinnar og skapa störf og aukið um leið fjárfestingu í landinu. Er þetta ekki nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að kalla eftir?