141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst stundum að það sé rík þörf til þess, ekki síst í þessum sal, að minna á augljósa hluti. Það virðist þá alltaf aftur og aftur sem maður þarf að minna á, eða einhverjir, að í upphafi þessa kjörtímabils horfðum við framan í efnahagslegt hrun, ekki bara niðursveiflu, skakkaföll eða eitthvað slíkt heldur hrun. Þegar maður talar um fjárlög liðinna ára finnst mér þess vegna að maður verði að sýna þeim aðgerðum sem þar er að finna vissan skilning og tala um hlutina af sanngirni. Þetta þýðir í mínum huga að maður getur ekki gert því skóna að margt það sem er í fjárlögum liðinna ára endurspegli endilega hugsjónir þeirra sem hafa lagt fram þau fjárlagafrumvörp. Þetta eru ekki endilega þeirra pólitísku markmið sem endurspeglast í þessum fjárlögum heldur hefur einfaldlega verið úr vöndu að ráða. Við höfum búið við mjög þröngan kost.

Augljóst dæmi: Það er ekki pólitísk hugsjón eins eða neins að greiða 90 milljarða í vexti á ári. Það er enginn sem fór fram með það baráttumál fyrir síðustu kosningar. Þetta er tala af þeirri stærðargráðu að hún hlýtur að hafa gríðarleg áhrif á alla umgjörð fjárlagavinnunnar. Í þessum kringumstæðum hef ég allt kjörtímabilið stutt þá blönduðu leið sem farin hefur verið, leið skattahækkana og niðurskurðar, mjög klassíska leið, og reynt að sýna því skilning að við erum að fara þessa leið í mjög sérstökum aðstæðum. Ég hef líka verið fylgjandi áherslunum í megindráttum, t.d. í skattkerfisbreytingunum þar sem meira hefur verið sótt hjá þeim sem hafa úr meira fé að spila.

Ég er líka býsna sáttur við að ekki var rokið í ýmsar aðgerðir sem menn töluðu ansi hátt fyrir þegar æsingurinn var hvað mestur. Menn vildu til dæmis fara í að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóðina og ég er feginn að við gerðum það ekki vegna þess að þá hefðum við verið að taka skattgreiðslur framtíðarinnar að láni af börnunum okkar.

Ég er feginn því að við hættum ekki samstarfinu við AGS. Í miðjum klíðum á þessu kjörtímabili voru mjög háværar raddir um að við ættum að hætta því. Ég held að það hafi verið farsælt að við héldum því til streitu.

Það var freistandi á sínum tíma að selja hlut í Landsvirkjun en ég er mjög ánægður með að það var ekki gert. Ég er í megindráttum ánægður með að það hefur tekist að halda sjó.

En það eru óvissuþættir, t.d. Icesave-málið. Mér finnst það stundum fullkomlega vanmetið. Það er algerlega óútkljáð. Það bíður dóms. Menn tala stundum hér eins og það sé úr sögunni, en það er óvissuþáttur ásamt uppgjöri á gjaldeyrislánum. Engu að síður held ég að við séum komin á þann tímapunkt núna með ríkisfjármálin að við þurfum að fara að horfa meira fram á við. Það eru stórar spurningar sem blasa við í fjárlögunum sem mér finnst núna að við þurfum að fara að útkljá.

Ég er hjartanlega sammála þeim áherslum sem komu fram í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan um að það verði að breikka grundvöll samfélagsins í atvinnulífinu, koma atvinnulífinu af stað. Það hlýtur að vera næsta verkefni. Við í Bjartri framtíð höfum haft ákveðið frumkvæði að því að í fjárlögunum er fjárfestingaráætlun sem gengur út á að taka arð sem myndast af einum stað í eignum ríkisins og nota hann til fjárfestingar í atvinnulífinu til að breikka grundvöllinn, auka fjölbreytnina. Ég held að þetta sé eitt mest aðkallandi verkefni íslensks samfélags.

Sú stefnubreyting sem hefur átt sér stað á undanförnum árum innan Landsvirkjunar gefur vísbendingar um að við getum gert þetta í miklu meira mæli, aflað miklu meiri arðs af eigum okkar í auðlindunum og varið þeim til að breikka grundvöllinn. Þetta eigum við að gera.

Eins hljótum við líka að þurfa að ræða gjaldmiðilinn. Þegar við tölum um skilyrði atvinnulífsins hljótum við að þurfa að ræða hvort við ætlum að hafa í lánasafni ríkissjóðs 400 milljarða til að efla gjaldeyrisvarasjóðinn. Ég veit ekki alveg nákvæmlega en fara þá ekki um það bil 30 milljarðar (Forseti hringir.) í vexti á ári í að halda úti krónu sem aukinheldur veldur þeim sveiflum í íslensku atvinnulífi sem gera öllum atvinnurekendum og heimilum erfitt fyrir að gera áætlanir (Forseti hringir.) og þar með vaxa og dafna?