141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:21]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir ræðuna. Eins og gengur er ég sammála sumu og ósammála öðru. Mig langar samt til að spyrja hv. þingmann út í þær breytingar sem ráðist var í á heilbrigðiskerfi landsmanna. Það var ákveðið að skera gríðarlega niður úti á landi. Sem betur fer tókst að verja heilbrigðisstofnanir að einhverju marki en niðurskurðurinn var gríðarlegur og vandinn er mikill.

Er hv. þingmaður sammála þeirri leið sem ríkisstjórnin fór á sínum tíma? Hann er meira og minna sammála öllu öðru sem var gert og ekki gert. Mig langar líka til að fá frekari upplýsingar um þær fullyrðingar að hægt verði að sækja meiri arð í auðlindir þjóðarinnar. Á hann þá við að hægt sé að taka hærra veiðileyfagjald úr sjávarútvegsauðlindinni? Á að taka meiri arð frá orkufyrirtækjunum eða mundi hann kannski vilja sjá frekari uppbyggingu atvinnulífs?