141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Takk kærlega. Ég fæ tvær mínútur til að svara mjög stórum spurningum en ég er þakklátur fyrir þessar spurningar vegna þess að ég hefði gjarnan viljað koma betur inn á þær í þeirri fimm mínútna ræðu sem ég fékk að halda áðan.

Varðandi niðurskurðinn sagði ég að ég væri sammála þessari stefnu allri í megindráttum. Mér gafst hvorki tóm né tækifæri í ræðu áðan til að fara yfir það lið fyrir lið hverju ég væri ósammála og hverju ekki. Ég held almennt talað að eftir öll þessu mögru ár sé mjög margt í íslensku samfélagi, þar á meðal heilbrigðisþjónustunni úti á landi, komið algerlega á ystu nöf, líka heilbrigðisþjónustan á höfuðborgarsvæðinu og margt í samfélaginu; velferðarkerfinu, löggæslunni og samgöngumálunum. Vegirnir hafa, held ég, aldrei verið verri. Þetta er einfaldlega þýðing þess að við þurftum að fara í gegnum þessi mögru ár. Það hefði kannski þurft að fá fleiri með á sömu blaðsíðuna og gera fleirum grein fyrir að þetta yrði svona.

Núna hefst í raun og veru uppbyggingarstarfið og það verður ekkert síður vandasamt vegna þess að við verðum að koma í veg fyrir að það verði þensla í þessu ótrygga hagkerfi sem við höfum búið okkur til með þessa flöktandi krónu. Þá má ekki aftur verða þensla sem leiði til annars hruns. Engu að síður verðum við að fara í þetta verkefni, nú verðum við að fara að byggja upp velferðarþjónustuna. Það er mjög mikilvægt og er það úti um land allt.

Arðinn af auðlindunum, það er mjög góð spurning. Landsvirkjun hefur unnið merkilega stefnu sem snýst um mjög einfaldan hlut, einfaldlega að fá hærra verð fyrir orkuna sem seld er stórkaupendum. Það er meiri eftirspurn eftir grænni orku, sú staða er komin upp, við erum meira eða minna búin að byggja upp innviði raforkukerfisins og núna getum við einbeitt okkur að því að selja stórkaupendum þá orku (Forseti hringir.) sem við jafnvel framleiðum nú þegar, umframorkuna, á mun hærra verði en við höfum gert. (Forseti hringir.) Ef við framkvæmum þá stefnu mun það skila í ríkissjóð verulegum upphæðum sem við getum notað til að efla atvinnulífið og velferðarkerfið.