141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að ræða um þá stórauknu skattheimtu sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu gagnvart ferðaþjónustunni. Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Skúla Helgasyni, sem taldi að þetta væri ekki það alvarlegt fyrir ferðaþjónustuna. En viðbrögðin hafa sýnt að svo telja menn vera.

Nú er það svo að menn sem starfa í þessum geira hafa nú þegar selt þá gistingu sem þeir hafa yfir að ráða næsta sumar og gefið út verð í mörgum tilfellum fyrir næstu tvö árin, þannig að þetta mun að sjálfsögðu hafa gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Þar hafa menn þungar áhyggjur af boðuðum skattahækkunum og það ætti ekki að leynast þeim sem hér starfa. Þá er líka alkunna og rannsóknir sýna það, að þegar skattheimta er orðin mjög mikil og háir skattar ríkja, verður tilhneigingin til þess að fara fram hjá kerfinu ríkari og fleiri reyna að komast hjá skattheimtunni. Þess vegna er skrýtið að hlusta á þá röksemdafærslu úr þessum stól frá hv. þm. Skúla Helgasyni að samhliða þessu eigi að fara í baráttu gegn neðanjarðarhagkerfi í ferðaþjónustunni, en að hans mati hafa menn verið að svíkja þar undan skatti. Kannanir sýna að þegar skattar hækka verður tilhneigingin ríkari til þess að fara þessar leiðir í svarta hagkerfinu og tilvikin verði fleiri. Ég tel því að hv. þingmaður þurfi að skoða þessi atriði betur.

Það sem ég ætlaði að ræða á þeim stutta tíma sem mér er úthlutað í þessari umræðu er liður í fjárlögum sem heitir Styrkir til fiskvinnslustöðva. Á fjárlögum fyrir árið 2012 var varið af hálfu ríkisins 190 millj. kr. í þennan sjóð eða þessa styrki til fiskvinnslustöðva. Hér er gert ráð fyrir að þessir styrkir verði núll krónur, þ.e. að þessi liður verði þurrkaður út. Nú er það svo að þetta byggir á lögum og um þetta hefur verið samið í kjarasamningum. Að mínu mati er þetta alvarlegt fyrir launafólk sem starfar í landi í fiskvinnslu og ógnar starfsöryggi þeirra. Þessir styrkir hafa komið til þegar um hráefnisskort er að ræða og ef þeir eru felldir úr gildi mun það hafa þær afleiðingar að þessum starfsmönnum verður sagt upp þegar ljóst er að magrir mánuðir fara í hönd. Þetta mun því hafa alvarlegar afleiðingar og í raun má segja að þetta sé aðför að því fólki sem starfar við þessi störf og er í mörgum tilfellum á lágum launum. Það hefur þó haft það öryggi, vegna þessara styrkja sem veittir hafa verið, að missa ekki vinnuna þegar til kemur hráefnisskortur. Þegar þetta fellur allt saman í burtu er fyrirséð að ástandið mun fara í fyrra horf, þ.e. að þessu starfsfólki verði einfaldlega sagt upp áður en hinir mögru mánuðir fara í hönd.

Það voru viðræður í gangi í vetur af hálfu stjórnvalda við fiskvinnslustöðvarnar um hvernig mætti haga þessum málum á annan hátt. Menn sáu svo sem að það væri vilji til þess hjá ríkisstjórnarflokkunum að skera þarna niður. En það má auðvitað ekki vera þannig að alltaf þegar talað er um fisk og útgerðir og fyrirtæki í sjávarútvegi, hlaupi ríkisstjórnarflokkarnir til með hnífinn og séu tilbúnir til að skera niður eða hækka skatta. Það verður að reyna að horfa á þetta málefnalega og í þessu tilviki held ég að menn hafi einfaldlega bara farið langt fram úr sjálfum sér.

Þessi breyting mun ekki bitna á neinum öðrum en láglaunafólki í landi sem starfar í fiskvinnslustöðvum og kallar á útskýringar af hálfu þeirra sem leggja fram þessa tillögu um hvernig þetta er hugsað og hvers vegna menn velja sér að ráðast með þessum hætti að starfsöryggi launafólks í landi í fiskvinnslu.