141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram í morgun um virðisaukaskatt á gistingu. Við skulum bara kalla þennan skatt sínu rétta nafni, við skulum bara láta hann heita svefnskatt héðan í frá, því að ríkisstjórnin hefur fundið upp á því núna að skattleggja sérstaklega í hæsta þrep virðisaukaskattsins sofandi fólk. Það er brugðið á ýmis ráð til að ná inn örlítið meiri tekjum fyrir ríkissjóð.

Þar sem ég hef í máli mínu undanfarin ár lagt áherslu á málefni sem snúa að öryggismálum þjóðarinnar — þá er ég að vísa í lögregluna, Landhelgisgæsluna, dómstólana og fangelsin — langar mig til að grípa ofan í nokkrar lykiltölur sem tengjast þeim málum og birtast í þessu frumvarpi. Ég ætla að byrja á því að fagna því sem kemur fram í frumvarpinu um Landhelgisgæslu Íslands. Svo virðist að rofað hafi til varðandi málefni Gæslunnar og ríkisstjórnin áttað sig á því hversu mikilvægt hlutverk þessi stofnun hefur fyrir okkur sem eyríki og ekki síst að Landhelgisgæslan sjálf geti sinnt sínu lögboðna hlutverki. Hér er lagt til aukið fjármagn til Landhelgisgæslunnar svo hægt sé að treysta rekstur þyrlu björgunarsveitarinnar og Landhelgisgæslan hefur þá rúm til þess að hafa þrjár þyrlur að staðaldri í rekstri. Þessu ber sannarlega að fagna.

Það sem ég geri hins vegar athugasemdir við í þessum málaflokkum er að verið er að draga saman um tæp 20% frá reikningi 2011 í Schengen-samstarfinu. Ég er oft spurð að því hvað Schengen-samstarfið kosti okkur og hér kemur það fram í frumvarpinu að áætlað er að rúmar 107 millj. kr. fari í samstarfið á næsta ári. Þetta er upphæðin, en mér finnst einkennilegt að verið sé að veikja þetta mikilvæga öryggishlið sem við höfum í Keflavík með þessum hætti og draga þarna úr fjármagni, sérstaklega í ljósi þess að stórauka á fjármagn til málaflokksins um hælisleitendur en hann tekur nú til sín 80 millj. kr. en samkvæmt reikningi 2011 var talan núll.

Það kemur fram í frumvarpinu að á fyrstu sjö mánuðum ársins 2012 höfðu 70 umsóknir borist um hæli hér á landi, samanborið við 76 umsóknir allt árið 2011. Ég vil benda á það, virðulegi forseti, að tölur sýna að frá því að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu fór inn á sumardögum 2009 hefur hælisleitendum stórfjölgað. En þetta er eitthvað sem helst má ekki nefna því að við vitum hvernig er talað um fólk sem leyfir sér að minnast á þetta. En ég vil setja þetta fram hér við fjárlagaumræðuna vegna þess að þetta er að verða stórt vandamál, sérstaklega fyrir tóman ríkissjóð, hversu mikið fjármagn fer einmitt í þennan málaflokk, einkum í ljósi þess að lagt er til í frumvarpinu að veikja Schengen-samstarfið með lækkun á framlagi. Ég vil koma þessu á framfæri.

Svo er það hið undarlega hér, sem reynt hefur verið að skýra síðan frumvarpið var lagt fram, það eru þessar reikningskúnstir varðandi fangelsisbygginguna. Hér er ekki gert ráð fyrir því að nýtt fangelsi rísi vegna þess að tekjuöflunaráætlun liggur ekki fyrir þegar þetta frumvarp er lagt fram í þinginu. Það er nokkuð kaldhæðnislegt að verið sé að leggja til fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvarpið er ekki enn komið fram. Þetta er vinnulag sem hefði þurft að bæta strax eftir hrun þannig að þingmenn gætu lesið þetta saman. Bygging á nýju fangelsi er hluti af fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013 og 2015 sem ríkisstjórnin hefur samþykkt, hún var sem sagt að samþykkja tekjuáætlanir fram í tímann. Endanleg tekjuöflun liggur ekki fyrir, en það á víst að taka þetta inn við sölu bankanna og með veiðigjaldi. (Forseti hringir.) Þarna er verið að skapa yfirdrátt langt inn í framtíðina — það eru kosningar í millitíðinni — í stað þess að gera ráð fyrir (Forseti hringir.) byggingu nýs fangelsis í fjárlögum eins og til stóð.