141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um fjárlög er eðlilegt að við beinum sjónum okkar að hinum stærri línum, áhrifum og afleiðingum frumvarpsins á íslenskt efnahagslíf, gangi það fram og verði að lögum.

Ég vil fyrst beina því til hv. þingmanna í fjárlaganefnd að skoða sérstaklega vel hvaða áhrif þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á sköttum muni hafa á þróun verðlags, hversu mikla hækkun við getum átt von á að sjá á verðbólgunni vegna þeirra skattahækkana sem ríkisstjórnin leggur til. Sú hækkun mun skila sér í samsvarandi hækkun verðtryggðra lána. Mikilvægt er að fyrir liggi nákvæm greining á afleiðingum þessara skattahækkana.

Það skiptir miklu máli í þessari umræðu að skoða vel og velta fyrir sér þeim áhersluatriðum sem birtast í frumvarpinu og hvaða stefnumótun liggur þar að baki. Forustumenn í íslensku atvinnulífi hafa bent á að ef staðið hefði verið við þær áætlanir sem ríkisstjórn Íslands gerði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefði hagvöxtur á þessu ári og því næsta orðið umtalsvert meiri en sá hagvöxtur sem stefnir í á þessu ári og talið er að verði á næsta ári. Þetta skiptir miklu máli. Það hefur komið fram hjá forsvarsmönnum atvinnulífsins að ætla megi að munurinn á stærð hagkerfisins ef gengið hefðu eftir þær áætlanir sem settar voru miðað við það sem í stefnir sé um það bil 100 milljarðar íslenskra króna, að hagkerfið hefði orðið 100 milljörðum stærra í árslok 2013 en talið er að það verði. Þetta hefði skipt gríðarlega miklu máli fyrir ríkissjóð. Hlutur ríkisins af þessum 100 milljörðum hefði orðið allverulegur og hjálpað mikið við allan rekstur. Það er einmitt það sem við sjálfstæðismenn gerum athugasemdir við og höfum gert á undanförnum árum.

Augljóslega höfðum við tækifæri til að vinna okkur hatt til baka eftir þetta mikla fall í þjóðarframleiðslunni. Það var mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það var mat ríkisstjórnarinnar, það var mat Alþýðusambandsins og það var mat atvinnulífsins alls. Það kom meðal annars fram í stöðugleikasáttmála sem ríkisstjórnin gerði sjálf við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið. Það kom fram í þeim samningi og þeirri áætlun sem gerð var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Afleiðingar þess að ekki tókst að standa við þetta, að ríkisstjórninni mistókst verkefni sitt, eru þær að þúsundir Íslendinga hafa verið atvinnulausar allt of lengi að nauðsynjalausu. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir að fólk flytti úr landi og það hefði verið hægt að minnka skuldasöfnunina þannig að við stæðum ekki frammi fyrir því að um 80 milljarðar kr. þurfa að fara úr ríkissjóði til að greiða vexti. Hið stóra kapphlaup var að ná strax upp hagvextinum, ná honum ríflega upp. Það er hægt eftir svo mikið fall án þess að komi til þenslu, um það eru allir sammála. Það var það sem vantaði.

Virðulegi forseti. Reksturinn á Landspítalanum, tugir milljarða — beri menn þann kostnað saman við vaxtakostnaðinn sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum augljóslega að endurnýja tæki og tól á Landspítalanum. Þess vegna er svo brýnt að hagvöxtur verði meiri og við vinnum okkur út úr þessum vanda með því að framleiða meira og skapa meiri verðmæti. Mér finnst eins og ríkisstjórnin, sem stóð frammi fyrir því verkefni að standa á fætur og hlaupa af stað, hrósi sér nú af því að hafa staðið upp (Forseti hringir.) og lötrað hægt af stað. Það var ekki nóg, virðulegi forseti, það var alls ekki nóg.