141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpið og þá greinargerð sem hún hefur flutt okkur um það. Þetta er út af fyrir sig átakalítið fjárlagafrumvarp til þess að gera, einkanlega miðað við það sem við þekkjum frá undanförnum árum og þeim gríðarlegu viðfangsefnum sem blöstu hér við og þeim algera viðsnúningi sem varð að ná í ríkisfjármálum og kallaði á gríðarlega erfiðar ákvarðanir og feikilega miklar deilur á þingi. Við munum hve lengi þær deilur stóðu yfir, ekki bara heilu dagana heldur fram á kvöld og jafnvel fram á nætur. Það voru erfiðir og umdeildir hlutir sem verið var að gera. Þess vegna er sérstök ástæða til að þakka fyrir þá góðu og málefnalegu umræðu sem hefur verið í dag og samhljóm um öll meginatriði frumvarpsins.

Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um einstakar aðgerðir og þingmenn hafi uppi viðvörunarorð en sem betur fer hefur þurft að setja fram óverulegar hagræðingarkröfur í ríkisrekstrinum fyrir komandi ár og sem betur fer eru tekjuöflunaraðgerðir óverulegar og snerta ekki launaskatta eða neysluskatta svo neinu nemi.

Það eru þó ákveðnar tillögur á tekjuhliðinni sem við í efnahags- og viðskiptanefnd fáum að kljást við og hafa umtalsverð áhrif á þá sem fyrir þeim verða. Þar er sérstaklega uppi tillagan um breytta álagningarprósentu virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Það er kannski stærsta og umdeildasta ákvörðunin sem hefur komið fram í þessu fjárlagafrumvarpi. Við hliðina á þeim stóru og erfiðu úrlausnarefnum sem eru að baki er þetta sannarlega viðfangsefni en ég treysti því að í málefnalegri umræðu og með viðræðum við hagsmunaaðila megi finna á því fullnægjandi lausn. Í þessu efni hefur fjármálaráðherra staðið frammi fyrir því að þurfa að auka tekjur ríkissjóðs. Það er óhjákvæmilegt. Við getum ekki rekið ríkissjóð með halla og safnað skuldum á komandi kynslóðir. Allir verða einfaldlega að leggja sitt af mörkum til að hætta þeim mikla hallarekstri sem hefur verið á fjárlögunum. Fram hjá því verður ekki litið að í allra mestu bólunni tók Alþingi ranga ákvörðun um að létta verulega virðisaukaskattsálögum á gistingu. Staðreyndin er einfaldlega sú að á þeirri ákvörðun hafði íslenskt samfélag engin efni og enn síður nú. Það að aðeins 7% virðisaukaskattur sé á gistingu erlendra ferðamanna er algerlega óviðunandi.

Þegar horft er til gengisþróunar íslensku krónunnar og til þess hve dregið hefur úr því sem hver og einn erlendur ferðamaður eyðir hér á landi þann tíma sem hann dvelur við, og í ljósi þess að við þurfum að huga að því að við getum ekki endalaust tekið á móti fleiri og fleiri ferðamönnum og bætt okkur upp litlar tekjur með því að fjölga ferðamönnum, þurfum við í æ ríkari mæli að horfa til þess að þeir skilji eitthvað eftir í þjóðarbúinu og þá líka til hinna sameiginlegu verkefna. Því má hverjum manni vera ljóst að á því fyrirkomulagi að aðeins sé 7% virðisaukaskattur á gistingu þurfa að verða breytingar. Hann var 14% áður fyrr og stóð ferðaþjónustunni sannarlega ekki fyrir þrifum en það hefur verið gagnrýnt að nú sé gengið lengra og farið alla leið upp í fulla virðisaukaskattsprósentu. Þá er til þess að líta að áður hefur hæstv. fjármálaráðherra komið fram með tillögur um að fara nokkurn veginn bil beggja og hækka aðra liði í 7% þrepinu upp í 14% en mætti gríðarlegri andstöðu af hálfu Samtaka atvinnulífsins. (Forseti hringir.) Kannski geta samræður og umræður skilað meiri samhljóm um (Forseti hringir.) þessar tillögur en nú virðist.