141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[10:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir þessa yfirferð. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það fyrirkomulag sem við erum núna að feta okkur inn í, að fara yfir einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins með hæstv. einstökum ráðherrum, ætti að gera umræðuna markvissari og möguleika okkar á að fjalla þá um afmarkaðri mál þeim mun betri. Það er einmitt slíkt mál sem ég hef hugsað mér að ræða við hæstv. velferðarráðherra.

Í sumar gerðist sá gleðilegi atburður að hæstv. velferðarráðherra skrifaði undir yfirlýsingu um endurbætur og uppbyggingu á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi þar sem hugmyndin er að færa þangað öldrunarstarfsemi. Heimamenn hafa bundið miklar vonir við þessar framkvæmdir og undirbúningurinn hefur tekið talsverðan tíma. Það hafa orðið miklar breytingar á starfsemi sjúkrahússins sem hafa opnað á þessa möguleika og að þessu hefur síðan verið stefnt. Hæstv. velferðarráðherra skrifaði sem sagt undir þessa yfirlýsingu núna í sumar og þar með má telja að málið sé komið á góðan rekspöl. Þegar maður skoðar hins vegar fjárlagafrumvarpið sjálft getur maður hvergi fundið þessari yfirlýsingu stað og í texta frumvarpsins er heldur ekki að finna neitt um þetta verkefni.

Við sjáum líka að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að skera niður fjárveitingar til verkefna af þessu taginu og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því í þessu sambandi með hvaða hætti verði staðið að þessari uppbyggingu. Ég efast ekki um vilja og áhuga hæstv. ráðherra í þessum efnum. Við erum örugglega alveg sammála um mikilvægi verkefnisins.

Kjarni málsins er þá bara þessi: Með hvaða hætti verður staðið að þessu? Hvernig verður þessi viljayfirlýsing fullnustuð með þeim hætti að þess muni sjá stað í afgreiðslu fjárlaga þegar þau koma út úr þinginu? Það sjáum við sem sagt ekki í frumvarpinu og það eykur ekki bjartsýni að sjá að þær tölur sem ætlaðar eru til uppbyggingar á þessum sviðum eru lækkaðar frá gildandi fjárlögum.