141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:13]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að þessi umræða sé einmitt hvatning um að við þurfum að standa vaktina og gera betur. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þegar við tökum niður kostnað í heilbrigðiskerfinu um hátt í 20% kemur það víða við og álagið er meira, ég held að við eigum ekkert að reyna að fela það. Þess vegna segi ég að það skipti miklu máli að við náum utan um það og jöfnum þetta álag og reynum líka að tryggja þjónustuna, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni og tryggja aðgengið. Það eru menn sammála um og er í lögum að fólk eigi að hafa sem jafnast aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hafi efni á því að sækja þá þjónustu.

Ég tek þetta sem hvatningu til að vinna áfram að þjónustustýringunni sem við erum að reyna að koma á. Ég hef þó sagt að ég hef helst ekki viljað gera það með einhverjum hamagangi. Það er hægt að stýra þessu með fjármagni, það er hægt að stýra þessu með aðgengi. Það er hugsanlega hægt að stýra þessu með því að sérfræðingar — það hafa verið vangaveltur um það — komi meira inn í heilsugæsluna þannig að hægt sé að fá meiri þjónustu þar. Það hefur til dæmis verið rætt fyrr í umræðunni að geðheilbrigðisþjónusta komi inn í heilsugæsluna og fari víðar um landið o.s.frv., þannig að nóg er af hugmyndunum.

Núna er einmitt tími til að skoða þetta og þess vegna voru þessir hópar skipaðir til að fara yfir þetta kerfi í rólegheitunum og vinna það þannig að það aðlagist nútímakröfum enn frekar. Ég hef sagt það áður sem velferðarráðherra að heilbrigðiskerfið er nákvæmlega eins og menntakerfið, það á að vera laust við pólitísk átök. Það finnst mér mjög mikilvægt. Við erum sátt um allar grundvallarhugmyndirnar, markmiðin í heilbrigðislögunum eru mjög skýr og við eigum að fylgja þeim um jafnræðið og aðgengið og annað slíkt. Það er okkar allra að feta þessa leið sameiginlega þar sem við reynum að nýta styrkleikana í kerfinu og hlúa að því sem þarf að hlúa að enn frekar.

Það er rétt að við erum bara ekki komin alveg þangað. Við erum einmitt núna að fá kyrrstöðu áður en við förum inn í framhaldið. (Forseti hringir.) Ég held að nýi Landspítalinn hafi þar engin áhrif, þ.e. nýi Landspítalinn. Ég deili því aftur á móti með hv. þingmanni að við þurfum að skoða vel tækjabúnaðinn á stofnunum og við erum að fara yfir það mjög skipulega.