141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvað er í þessu 6. gr. ákvæði. Erum við að tala um 500 milljónir til hönnunar, erum við að tala um 3 milljarða eða um hvaða tölu er að ræða? Ef við hættum við að byggja á þessum stað, sem ég tel vera slæman, gætum við nefnilega verið að henda þessari upphæð. Ég er mikið á móti þessari byggingu þannig að fyrir mér er þetta tapaður peningur.

Raunvaxtalækkun hjá Íbúðalánasjóði á markaði og uppgreiðslur þannig að hann verði nánast óþarfur — það getur kostað tugi milljarða. Ég ætla bara að segja mönnum frá því þannig að þeir viti það og verði ekki hissa þegar það gerist.

Það er mjög gott að heyra að starfsendurhæfingarsjóður, sem ég tel vera mjög mikilvægan fyrir öryrkja og aðra, sé á góðu róli. Ég fékk ekki svar við spurningu um hækkun bóta almannatrygginga en býst við að fá það. Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að verðlag hækki um 3,9% og bæturnar hækki þá eins. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 3,7% hækkun vísitölu og bæturnar voru hækkaðar um 3,5%, en svo varð vísitalan 5,4%, þ.e. 1,9% meiri en ætlað var. Mér er ekki kunnugt um að eitthvað sé leiðrétt fyrir þessu. Það gerist reyndar ár eftir ár að verðlagsforsendur fjárlaga standast ekki, verðbólgan verður meiri, og fólkið situr alltaf eftir.