141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:41]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svarið. Ég fullyrði að enginn efast um góðan vilja hennar í garð hinna skapandi greina og allra síst í garð kvikmyndagerðarinnar. Til marks um það hversu mikilvæg kvikmyndagerð er orðin sem atvinnuvegur í samfélaginu ætla ég að minnast á hlut sem ekki er á verksviði hæstv. menntamálaráðherra og það eru endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Kvikmyndaframleiðendur fá 20% endurgreitt af skatti af þeim peningum sem varið er til kvikmyndagerðar hér á landi. Þarna er að nokkru leyti að finna skýringuna á því að heilir kaupstaðir verða að flytja burt vegna þess að erlendir stórlaxar í kvikmyndagerð hafa keypt afnotaréttinn af svæðinu til lengri eða skemmri tíma, samanber það sem nú er að gerast á Seyðisfirði.

Þessar endurgreiðslur eru áætlaðar núna 400 millj. kr. Það eru eiginlega allir sem eitthvað þekkja til greinarinnar sammála um að sú tala sé allt of lág. En bara sú tala, 400 millj. kr. í endurgreiðslur, þýðir veltu upp á 2 milljarða og veltan verður miklu meiri. Þetta vildi ég nefna til marks um mikilvægi greinarinnar og ég spyr núna: Stendur ekki til að festa í sessi undirstöðu kvikmyndagerðarinnar, sem er Kvikmyndaskóli Íslands? Á meðan aðrir skólar á Íslandi komast ekki á blað fyrir gæði hefur þessi skóli á sínum líftíma (Forseti hringir.) aflað sér viðurkenningar frá CILECT, samtökum kvikmyndaskóla í veröldinni, sem einn af 60 bestu kvikmyndaskólum í Evrópu (Forseti hringir.) og það er býsna gott. Þessi skóli verðskuldar að vera nefndur sínu rétta nafni í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) og hann verðskuldar að gerður sé við hann samningur sem staðfestir tilveru hans og tryggir öryggi.