141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég nefni fyrst verk- og tæknigreinarnar. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um niðurskurð til stórra verknámsskóla. Eins og ég reyndi að koma til skila í upphafsræðu minni þá er þessi niðurskurður forgangsröðun út frá köldu mati okkar á því hvaða skólar þoli frekari niðurskurð. Ástæðan fyrir því að við teljum að þessir skólar þoli hann frekar en aðrir — og ég er ekki að segja að það sé þeim auðvelt því að allir framhaldsskólarnir eiga við mjög erfiða stöðu að stríða — er sú að þessir skólar hafa fengið aukna fjármuni úr átakinu Nám er vinnandi vegur, sem ekki hefur nýst hinum hefðbundnari bóknámsskólum. Það er ástæðan fyrir þessari forgangsröðun sem sumum kann að virðast að sé ekki í fullu samræmi við stefnumótun okkar. En þetta er ástæðan og ég tel að þetta sé í fullu samræmi við stefnumótun okkar. Hins vegar er ljóst að þarna birtast ekki þeir fjármunir sem hafa verið settir inn í gegnum umrætt átak. Þetta er bara byggt á mati okkar á því hver þoli helst niðurskurð en ekki er þar með sagt að þeir þoli hann vel.

Hvað varðar verk- og tæknigreinar almennt fór ég yfir háskólastigið áðan og fjölgun nemenda. Ég vil nefna að fjárveitingar til þeirra greina hafa hækkað um 58% á fjárlögum undanfarin sex ár á sama tíma og hækkunin til hug- og félagsvísindagreina hefur numið 36%. Við þurfum líka að horfa á þær tölur þegar við ræðum þessi málefni.

Náttúruminjasafnið — þar er þjóðminjavörður settur forstöðumaður, það er rétt. Unnið er að því að ljúka stefnumótun fyrir safnið og einnig er unnið að því að ljúka skoðun á húsnæðiskosti fyrir safnið. Ég tel mikilvægt að það liggi fyrir áður en embætti nýs forstöðumanns verður auglýst. Það verður svo gert í framhaldinu.

Ég bendi á að í fjárfestingaráætluninni, sem ég nefndi hér áðan, var gert ráð fyrir hugsanlegum stofnkostnaði við sýningu Náttúruminjasafns. (Forseti hringir.) Í hann verður að sjálfsögðu ekki ráðist nema líka liggi fyrir rekstrarkostnaður við téð Náttúruminjasafn. Þetta er það sem liggur fyrir í þessum málum.