141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Er þá gert ráð fyrir þeim breytingum sem hæstv. ráðherra talar hér um að séu í farvatninu og tekið tillit til þeirra í fjárlögunum eða eigum við eftir að sjá við 2. umr. fjárlaga tillögu um aukið framlag til sjóðsins vegna þessara tillagna? Verður það þannig?

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um lið 299, Háskóla- og rannsóknastarfsemi, þar sem lagt er til að heildarframlag á liðinn lækki um 17 millj. kr. Þarna erum við með fræða- og þekkingarsetur víða á landsbyggðinni. Framlag til Þekkingarseturs Vestmannaeyja lækkar til dæmis um 0,2 millj. kr., til Þekkingarseturs á Suðurlandi um 0,1 millj. kr. og ég spyr: Hvers vegna er ráðist í þetta og hvaða hugmyndir eru þarna að baki? Kemur eitthvað annað út á landsbyggðina á móti? Er verið að auka framlög í aðra starfsemi, aðra háskóla- og rannsóknastarfsemi á landsbyggðinni eða er hér um að ræða 17 millj. kr. niðurskurð á landsbyggðina sérstaklega og þessa starfsemi sem við höfum hægt og bítandi byggt upp víðs vegar um landið þannig að sem flestir landsmenn eigi greiðan aðgang að háskólanámi?