141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá í fyrsta skipti frá efnahagshruninu að unnt verði að ráðast í umfangsmikil uppbyggingarverkefni á innviðum samfélagsins með auknum tekjuöflunaraðgerðum og munar mikið þar um tekjur af auðlindum okkar, ekki síst af veiðigjaldi á aflaheimildir, sem samþykkt var hér á þingi í vor. Vegna þeirrar ákvörðunar sjáum við nú fram á 2,5 milljarða viðbótarframlag til mikilvægra samgönguframkvæmda sem mun hafa gríðarlega þýðingu og stórbæta búsetuskilyrði og atvinnulíf.

Vegna veiðigjaldsins munum við nú geta flýtt gerð Dýrafjarðarganga, þannig að þau hefjist ekki seinna en árið 2015 og verði lokið árið 2018. Við munum strax geta hafist handa við gerð Norðfjarðarganga sem leysa af hólmi úr sér gengin Oddsskarðsgöngin.

Það er líka fagnaðarefni að sjá í frumvarpinu hækkun á framlögum til sóknaráætlana landshluta sem nemur 400 millj. kr., að uppbyggingar- og rannsóknastarf verði eflt og framlög til sjóða og verkefna í þágu rannsókna og vísinda.

Við sjáum núna loks fram á uppskerutíð eftir harðan og illviðrasaman efnahagsvetur undanfarinna þriggja ára þar sem okkur gefst loksins kostur á að styrkja innviði okkar með tekjum af þjóðarauðlindum okkar. Þessu ber að fagna.

Ég vil líka fagna því að sjá nú í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir rausnarlegu framlagi til vegagerðar víða um land, ekki síst á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem því miður hafa staðið áralangar deilur og málaferli um leiðarval vegna ágreinings um lagningu vegar um Teigsskóg í Þorskafirði. Það er tilefni þess að ég vil eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra.

Nú hefur frést að Vegagerðin sé að leita ásættanlegra lausna á því máli. Af því að ég veit að þetta mál hefur verið höfuðverkur bæði hér í þinginu og í ráðuneytinu vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvenær vænta megi endanlegrar niðurstöðu varðandi leiðarvalið. Einnig hvort ekki megi í eitt skipti fyrir öll slá á þann ótta íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum að framlög til Dýrafjarðarganga og Dynjandisheiðar muni ekki koma niður á vegagerð í Gufudalssveit á hinu umdeilda svæði.