141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er réttilega rifjað upp að það voru deilur um vegalagningu í Gufudalssveitinni og sýndist sitt hverjum. Sumir vildu fara Teigsskóginn, aðrir vildu fara Hjallahálsinn. Ég var sjálfur í síðari hópnum, hefði á sínum tíma alveg eins getað horft til Teigsskógs en vissi að það var mikil andstaða við vegalagningu þar og að hún mundi leiða til langvinnra málaferla. Varðandi Hjallahálsinn vísuðu heimamenn þeirri leið afdráttarlaust á bug. Það var mjög afdráttarlaust og eftirminnilegt þegar Patreksfirðingar gengu fylktu liði af fundi þegar sú leið var reifuð þar. Yfirlýsing þeirra var mjög afdráttarlaus sem og sveitarstjórnarmanna á því svæði. Hún var því blásin út af borðinu.

Hvað er þá til ráða? Jú, það að fara láglendisleið. Eins og hv. þingmaður segir horfa heimamenn fyrst og fremst til þess. Ég er ekki með nákvæmar tímasetningar um hvenær niðurstöður geti legið fyrir en verið er að gera rannsóknir á göngum og fýsileika þess að fara í gegnum Hjallahálsinn í göngum. Það er verið að skoða það. Það er jafnframt verið að skoða aðra möguleika, t.d. þveranir fjarða, sem væru þá valkostir við þessa leið. Þessi vinna er einfaldlega í gangi en ég er ekki kominn með tímasetningar um verklok á þessari rannsóknarvinnu.