141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina um málaflokkinn áðan. Ég ætla aðeins að blanda mér í þá umræðu sem hefur þegar átt sér stað. Ég tek heils hugar undir það að auðvitað er mikilvægt að fara í vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum, um það er ekki deilt í þinginu. Ég verð þá að ítreka enn og aftur að þessar hríslur þarna í Teigsskógi eru sennilega dýrustu hríslur á landinu miðað við þann kostnað sem þarf að leggja í til að komast fram hjá þeim.

Annað sem ég ætla að ræða hér við hæstv. ráðherra snýr að svokallaðri 6. gr. heimild. Í henni stendur að það eigi að „selja húseignir ríkisins við Borgartún 5 og 7, Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði.“ Þetta er 6. gr. heimild sem er búin að vera inni í nokkur ár. Ég hef átt orðastað við hæstv. ráðherra þar sem hann hefur lýst þeirri skoðun sinni, og þar erum við sammála, að meira húsnæði þurfi fyrir aðalstöðvar Vegagerðarinnar og að skynsamlegra sé að nýta það húsnæði sem nú þegar stendur hálftómt úti á landsbyggðinni. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki bara í lagi að taka þessa 6. gr. heimild út og þar af leiðandi kæmi fram sá vilji ráðherrans sem snýr að henni?

Síðan vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í fjárlögum fyrir árið 2013 og snýr að Útlendingastofnun. Þar er gert ráð fyrir útgjöldum upp á 176 millj. kr. Gert var ráð fyrir 171 milljón á þessu ári en niðurstaðan fyrir árið 2011 varð 275 millj. kr., þ.e. 100 milljónir umfram fjárlög. Telur hæstv. ráðherra þörf á að koma með breytingartillögu um Útlendingastofnun við meðferð frumvarpsins í þinginu fyrir 2. umr. eða milli 2. og 3. umr.?

Hið sama á við um hælisleitendur þar sem kostnaðurinn í fjárlögum ársins 2012 er áætlaður 77 milljónir. Ég held að það sé sá fjárlagaliður sem fari hvað öruggast fram úr áætlun. Hins vegar er gert ráð fyrir því að á næsta ári verði einungis 80 milljónir settar í þennan lið sem er lítil hækkun á milli ára.

Telur hæstv. ráðherra þörf á að koma með breytingartillögur um það að hækka þessa tvo fjárlagaliði, annars vegar til Útlendingastofnunar og hins vegar vegna hælisleitenda, áður en fjárlagafrumvarpið verður afgreitt? Mun hæstv. ráðherra gera athugasemdir ef það kemur breytingartillaga um að taka 6. gr. heimildina út um að selja húseignir Vegagerðarinnar við Borgartún 5 og 7 og frekar að styrkja undirstöðurnar úti á landsbyggðinni þar sem nú þegar er nægt húsnæði sem stendur tómt?