141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, það er deginum ljósara að það verður farið í smíði nýrrar fangelsisbyggingar og það verður farið í að fá nýja ferju til Vestmannaeyja. Þetta eru forgangsmál. Vegna þess hvernig þau eru fjármögnuð, að við tökum fjármuni sem við settum áður inn í fjármálakerfið þaðan út aftur, ætlum við að verja fénu til þessara mikilvægu framkvæmda.

Varðandi mál hv. þingmanns um Útlendingastofnun og hælisleitendur tel ég að hann hafi mikil rök fyrir því sem hann segir þegar hann telur þurfa að vera meira samræmi á milli veruleikans í ár hvað varðar hælisleitendur og áætlunar á komandi ári. Þetta er nokkuð sem við þurfum að horfa til þegar við afgreiðum fjárlögin endanlega frá okkur því að ég tel að hv. þingmaður hafi mikil rök fyrir máli sínu hvað þetta snertir.