141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrir liggur að í þessum málum þarf alltaf að fara fram ákveðið mat á stöðu atvinnugreinarinnar. Þegar við lítum á ferðaþjónustuna má segja að hún sé ekki lengur atvinnugrein á byrjunarstigi heldur hafi hún þegar sannað gildi sitt. Við höfum séð sívaxandi veltu, síaukinn fjölda ferðamanna hingað til lands og því má ræða um það hvenær atvinnugreinar séu komnar á það stig að þær geti staðið undir eðlilegum arðgreiðslum til samfélagsins.

Eins og kunnugt er — og hv. þingmanni er kunnugt um það þó að hann hafi vafalaust ekki verið sammála því — stóð þessi ríkisstjórn að því að leggja veiðigjald á sjávarútveginn sem miðast við sömu hugmyndafræði, þ.e. að atvinnugreinar skili eðlilegri rentu til samfélagsins.

Hv. þingmaður spyr hér góðrar spurningar um muninn á kvikmyndagerð og ferðaþjónustu. Ljóst er að sú aðgerð sem farið var út í, að taka upp endurgreiðslur til kvikmyndagerðar til að laða að erlend verkefni, var ekki síst hugsuð sem hvati til atvinnugreinar sem ekki væri búin að festa sig í sessi með sama hætti og ferðaþjónustan. Kannski má segja að við séum fyrst á þessu ári að sjá gríðarlega ásókn erlendra framleiðenda í að gera kvikmyndir hér á landi. Ef við skoðum hvert umræddar endurgreiðslur runnu á síðasta ári þá runnu þær að megninu til til innlendra verkefna. Þessar endurgreiðslur sem á sínum tíma voru hugsaðar til að laða að erlend fyrirtæki og auka erlenda veltu runnu fyrst og fremst í íslenska kvikmyndagerð. Ég sagði það sjálf, meðal annars í þessari pontu, að kannski væri ástæða til að hugsa þetta stuðningskerfi kvikmynda upp á nýtt ef endurgreiðslurnar nýttust fyrst og fremst í innlendri framleiðslu, að við ættum þá að horfa til Kvikmyndasjóðs í þeim efnum.

Nú hafa þessar endurgreiðslur hins vegar sprungið út og skilað mikilli veltu eins og ég nefndi í framsöguræðu minni. Spurningin er hins vegar sú hvort við hugsum þetta til lengri tíma og hvenær við förum þá að innheimta rentu af þessari atvinnugrein eins og öðrum.