141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrra svari mínu til hv. þingmanns hefur ferðaþjónustan vaxið mjög á undanförnum árum. Meira að segja hefur verið rætt um að huga þurfi að aðgerðum til þess að við getum hreinlega tekið á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Það er bara mjög jákvætt.

Þar sem segja má að ferðaþjónustan hafi slitið barnsskónum — hún starfar sem öflugur atvinnuvegur, sem ég verð fyrst manna til að fagna — er líka mikilvægt að við hugum að jafnræði atvinnugreina þegar kemur að því hvaða arði þær skila til samfélagsins. Um það snýst þessi röksemdafærsla. Ég efa ekki að hv. þingmaður er sammála því að mikilvægt sé að atvinnugreinarnar sitji þar við sama borð, ég get ekki ímyndað mér annað.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að nauðsynlegt er að skapa störf en ég held að það vinnist ekki með sértækum aðgerðum á þessu sviði. Ég tel mikilvægt að við stefnum að heilbrigðu umhverfi fyrir allar atvinnugreinar. Það höfum við verið að gera með aðgerðum okkar í ríkisfjármálum á undanförnum árum.

Hv. þingmaður er í Sjálfstæðisflokknum sem fyrst og fremst hefur rætt um að fara í niðurskurð en engar hækkanir á sköttum. Ef við lítum á þá skatta sem þegar hafa skilað sér í þjóðarbúið þá erum við að tala um á annað hundrað milljarða. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ávallt efast stórlega um að þeir skattar mundu skila sér en tölurnar tala sínu máli. Þær sýna þvert á móti að þessir skattar hafa einmitt verið að skila sér.

Hvað varðar verð og bókanir sem þegar hafa verið gerðar vitum við það öll sem einhvern tímann höfum bókað ferð til útlanda að það verð er yfirleitt með fyrirvara. Ég efast því um að þetta hafi þær stórfelldu afleiðingar í för með sér að þetta skili sér ekki þegar að því kemur. En þetta kann vissulega að hafa áhrif á aðsókn ferðamanna til Íslands. Ég held að við þurfum að horfast í augu við það að þessi hækkun getur haft einhver slík áhrif.