141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði í raun ekki að blanda mér inn í þennan lokahnykk fjárlagaumræðunnar þar sem ég hef ekki heimild til þess samkvæmt þeim reglum sem við sömdum um fyrir þessa umræðu, en ég gat ekki annað eftir að hafa hlustað á orð hv. þingmanns. Ég vil benda hv. þingmanni á, af því að hann saknaði framsóknarmanna við þessa umræðu, að framsóknarmenn hafa rætt við a.m.k. fjóra ráðherra ef ekki fimm um fjárlögin. Það kann að vera að við hefðum átt að ræða við alla en kannski var það ekki það merkilegt sem þeir höfðu fram að færa að við vildum eyða í það tíma og orðum. En ef hv. þingmaður hefði fylgst með umræðunni hefði hann tekið eftir því að við tókum töluverðan þátt í henni.

En úr því að ég er kominn hingað upp langar mig að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Sú fyrri snýr að því að svo virðist sem í þessum fjárlögum sé ætlunin að virða ekki það samkomulag sem gert var um raforkuskattinn svokallaða, að hann ætti að falla niður um áramót, heldur virðist eiga að innheimta hann áfram. Sé þetta rétt vil ég spyrja hv. þingmaður hvort hann sé sáttur við það eða telji eðlilegt að virða ekki slíka samninga.

Hin spurningin lýtur að hækkun á tryggingagjaldi. Ég veit ekki betur en veitt hafi verið loforð um að það yrði ekki hækkað í tengslum við stöðugleikasamningana, en það kann að vera misminni hjá mér. Að minnsta kosti held ég að þetta sé rétt hjá mér með raforkuskattinn.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að áhrifanna af hruninu mun gæta í áratugi og öldum saman verði þessi ríkisstjórn áfram við völd.