141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[18:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið snýst nefnilega um það að við erum ósammála um leiðir. Þess vegna erum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ekki í sama stjórnmálaflokki og tökumst á um það hvernig eigi að ná tökum á ríkisfjármálunum á hverju einasta ári. Þar skilur leiðir með okkur. Ég tel að sú leið sem við höfum farið, hin svokallaða blandaða leið þar sem við höfum dregið úr útgjöldum ríkisins með það í huga að hlífa velferðarhluta útgjaldanna sem allra mest, sem mest hefur mátt vera, og gera helmingi minni aðhaldskröfu til velferðarmála en annarra málaflokka jafnhliða því að afla tekna á móti, hafi skilað okkur vel áfram og verið árangursrík.

Höfðum við, ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, ef við værum alveg einlægir við sjálfa okkur og aðra, fulla trú á því vorið 2009 að við stæðum í þeim sporum í dag að vera að leggja fram nánast hallalaus fjárlög? Hallinn fyrir tæpum þremur árum var nærri 80 sinnum meiri en við erum að tala um í dag. Ég skal alveg segja fyrir mig að ég var ekki fullur bjartsýni á að það verkefni mundi nást en það hefur samt sem áður gerst. Mér finnst þetta hafa verið árangursrík aðferð. Hún hefur ekki bara skilað ríkissjóði góðum árangri heldur samfélaginu öllu líka því að hún hefur ekki orðið til þess að rústa velferðarkerfinu, atvinnulífinu eða heimilunum heldur þvert á móti höfum við samhliða því að takast á við ríkisfjármálin náð meiri jöfnuði í samfélaginu en nokkru sinni áður (Forseti hringir.) og miklu meiri en við létum okkur dreyma um.