141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það hefur varla farið fram hjá neinum að undanfarin ár hefur verið mikið álag á íslenskt heilbrigðisstarfsfólk, aukið vinnuálag og niðurskurður. Í samanburði á niðurskurði til heilbrigðisþjónustu í Evrópulöndum á árinu 2010 kom í ljós að hann hefði hlutfallslega hvergi verið jafnmikill og á Íslandi, nema þá á Spáni.

Það var, hélt ég, almennur og sameiginlegur skilningur að heilbrigðisstarfsfólk ætti að fá notið þess þegar það væri búið að taka á sig þetta aukna álag á meðan verið væri að fara í gegnum mestu þrengingarnar en nú hafa hjúkrunarfræðingar verið samningslausir í rúmt ár. Í morgun söfnuðust 200 hjúkrunarfræðingar saman fyrir utan Landspítalann til að sýna samninganefnd sinni stuðning. Það hefur heldur varla farið fram hjá neinum að mikil óánægja hefur verið almennt innan Landspítalans með þróun mála þar. Það hlýtur að teljast skiljanlegt þegar menn búa við þær aðstæður að hafa tekið á sig þennan mikla niðurskurð en eru svo látnir vera samningslausir langt umfram það sem ásættanlegt getur talist.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig ætlar hann að bregðast við þessari stöðu? Hvernig ætlar hann að koma til móts við starfsfólk Landspítalans og aðra heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi?

Það er ljóst, og hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu, að mikil ásókn er í íslenskt heilbrigðisstarfsfólk, lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra, annars staðar á Norðurlöndum og auðvelt fyrir þetta fólk að fá þar vinnu á miklu betri kjörum en hér. Það er því orðið óhjákvæmilegt að bregðast við. Hvernig ætlar heilbrigðisráðherra að bregðast við þessari stöðu?