141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[13:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að mikið álag hefur verið á starfsfólki í framhaldi af aðhaldsaðgerðum sem beitt hefur verið í heilbrigðiskerfinu. Menn hafa fundið fyrir niðurskurðinum enda umtalsverður. Eins og hér hefur komið fram þá hefur hann að sumu leyti verið meiri en víðast annars staðar. Þó verður að hafa í huga að almennt hafa heilbrigðisútgjöld á undanförnum 20 árum í Evrópu, ef ég man rétt, þrefaldast, þ.e. menn hafa verið að glíma við sífelldan vanda við að halda kostnaði niðri.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að um leið og við getum farið að núllstilla — sem nú er búið að gera, það verður ekki frekari niðurskurður, það er ákveðið að heilbrigðiskerfinu verði hlíft — fara menn að byggja upp hægt og bítandi aftur þá með forgangsröðun þar innan spítalanna. Það verður að vinna úr því. Enn hefur ekki verið unnið neitt plan af þeim sem hér stendur um hvernig bregðast eigi við þeirri umræðu sem verið hefur í gangi undanfarið. En við fylgjumst vel með og erum í viðræðum við aðila og þá sem stjórna spítalanum. Við munum skoða hvernig til tekst. Þó verður að geta þess að kjarasamningar heyra ekki undir velferðarráðuneytið heldur undir fjármálaráðuneytið og það skiptir máli að það fari í eðlilegan farveg. Varðandi hjúkrunarfræðinga þá held ég að þeir hafi ekki verið kjarasamningslausir heldur hefur vantað stofnanasamning í ár sem er ákvæði í kjarasamningi ef ég veit rétt.

En staðan er sem sagt þessi. Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með og verðum að bregðast við. Þetta er bara staða íslensks samfélags í því umhverfi sem við erum með óhagstætt gengi í erfiðri samkeppnisstöðu verandi með lönd eins og Noreg sem er að leita sér að heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er ekki nýtt viðfangsefni. Alveg frá því að hrunið varð höfum við verið í samkeppni um starfsfólk.