141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

kjarasamningar hjúkrunarfræðinga.

[13:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að við höfum ákveðið að reyna að hlífa heilbrigðisþjónustunni. Í því felst líka að við þurfum að fara í uppbygginguna í framhaldinu. Fjárlaga- og fjárhagsramminn ræður þar miklu um hvað verður mögulegt.

Nú eru fjárlögin komin fram með þeirri forgangsröðun að þarna er stór málaflokkur, öldrunarmálin og heilbrigðismálin, þar sem ekki er um að ræða neinar frekari aðhaldsaðgerðir. Eftir mikla vinnu sem verið hefur í gangi og er í gangi varðandi endurskipulagningu á kerfinu í heild — það hafa meðal annars starfað sex starfshópar sem eru að skoða þjónustustýringu og fleira — hef ég orðað það svo að samhliða fjárlagavinnunni þurfi að fara yfir einstaka þætti til að sjá hvert svigrúmið er.

Varðandi það hvort bíða eigi með framkvæmdir til að mæta þessu ætla ég ekki að taka afstöðu til þess hér. Menn verða að vega það og meta. Menn hafa verið að hvetja okkur til að fara í framkvæmdir til að sporna gegn atvinnuleysinu og til að fá hjólin til að snúast betur þannig að ég ætla ekki að stilla þessu hvoru á móti öðru. En verkefnið liggur fyrir og við þurfum að vinna að lausn á því öll saman eins og við mögulega getum.