141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðilsmál.

[13:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Á dögunum kom út skýrsla Seðlabanka um gjaldmiðilinn, ítarleg skýrsla sem lengi hefur verið beðið eftir, og er mikilvægt innlegg inn í þá umræðu sem hér þarf að verða um framtíðarskipan krónunnar og gjaldmiðilsmála hér á landi. Ég tel augljóst að við þurfum að fjalla rækilega um þessa skýrslu á vettvangi þingsins, í nefndum þingsins, og taka hana og þær tillögur sem í henni kunna að felast til mjög rækilegrar athugunar.

Það er hins vegar kannski dálítið vandmeðfarið að lesa skýrt út eina einhlíta niðurstöðu í skýrslunni. Mig langar til að spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hver sé að hans mati meginniðurstaða þessarar skýrslu. Hvað er það í þessari skýrslu sem að hans mati skiptir hvað mestu máli fyrir okkur í þessari umræðu? Mig langar einnig til að fá viðbrögð frá honum við þeirri skoðun hæstv. utanríkisráðherra að þessi skýrsla sýni að evran sé langbesti kosturinn og að krónan sé beinlínis skaðleg; að það sé alveg óljóst, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði nokkuð skýrt í frétt (Utanrrh.: Af hverju spyrðu mig ekki? Af hverju … ?) í DV, hvaða gagn íslenska krónan hafi gert í kreppunni. Ég held reyndar að hagfræðingar hafi talið að hún hafi skipt verulega miklu máli. Hvað finnst hæstv. atvinnuvegaráðherra um þá skoðun hæstv. utanríkisráðherra að skýrslan sé rothögg fyrir þá sem hann vill kalla krónusinna hér á landi? Ég varpa þessari spurningu til hæstv. ráðherra.