141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðilsmál.

[13:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Koma húsinu í lag, sagði hæstv. atvinnuvegaráðherra, og jafnframt að við mundum búa við krónuna um ókomin ár. Auðvitað skiptir máli hvernig frammámenn ríkisstjórnarinnar fjalla um þetta mikilvæga mál. Hvað er það sem skiptir mestu máli núna í framhaldinu af endurreisn efnahagslífs okkar? Það skiptir auðvitað grundvallarmáli hvernig við höldum utan um gjaldmiðilinn, hvernig við tölum um þann gjaldmiðil sem við höfum verið með í landinu og gerum okkur grein fyrir því, eins og kemur fram í skýrslunni, að hann hefur skipt verulega miklu máli við endurreisnina sem þó hefur farið fram hér. Það er grundvallaratriði.

Það vekur mikla athygli þegar hæstv. utanríkisráðherra afgreiðir krónuna bara út af borðinu, segir að hún sé beinlínis skaðleg. Ég fagna því að hæstv. atvinnuvegaráðherra skuli þó tala um að krónan skipti máli hér um ókomin ár. Ég vil fá það skýrar frá hæstv. ráðherra: Hver er hans skoðun (Forseti hringir.) á þessu mikilvæga máli? Það gengur ekki að ríkisstjórnin leiki tveim skjöldum í svo mikilvægu máli sem gjaldmiðillinn er.