141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

launamál heilbrigðisstarfsmanna.

[13:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um ófremdarástand á Landspítalanum og kannski víðar. Ljóst er að það er kraumandi óánægja með kjörin, og er það svo sem víðar í samfélaginu, vegna þess að menn hafa haldið lokinu ansi þétt á eftir þá hreinsun sem varð að fara í þar sem við týndum 20% af tekjum ríkissjóðs. Það væri í sjálfu sér athyglisvert ef hv. þingmaður skýrði út hvað gerðist þar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sem fagráðherra hef ég ærna ástæðu til að fylgjast með og reyna að vinna að lausnum hvað þetta varðar. Varðandi það að hafa skoðun á stöðunni verð ég að viðurkenna það sem velferðarráðherra og fyrir þau sjónarmið sem ég hef staðið fyrir hingað til að ég tel að velferðarstarfsmenn eigi að vera vel launaðir, svo að það sé nú sagt, hvort sem er í mennta- eða heilbrigðisstéttum. Oft hefur hallað á á milli viðskiptalífsins og velferðarkerfisins, sem væri líka ástæða til að greina og fara yfir hvernig á því stendur.

Ég veit að staðan er afar viðkvæm vegna þess að við erum í sjálfu sér að fara inn í enn eitt árið, þó þannig að nú erum við að setja okkur grundvöllinn til að fara að byggja upp aftur. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Þar eru verkefnin mörg. Það er búið að nefna það í þessari umræðu að taka þarf á tækjamálum sem voru svelt fyrir hrun og hefur ekki tekist að bæta úr eftir að við urðum að fara í þessa hörðu aðlögun.

Ég svara á þann veg að það hefur ekki komið mér á óvart að menn horfi til þess að þeir geti sótt sér kjarabætur í framhaldinu, bæði af þeirri umræðu sem hefur farið fram og vegna þess að við höfum haldið þessum launum niðri eins og öðrum. Staðan kemur því ekki á óvart, þetta er að sjálfsögðu verkefni fagráðherra en fyrst og fremst fjármálaráðherra og launastefnunnar í heild. Það er okkar í sameiningu, eins og ég sagði áðan, að reyna að finna lausnir á þessu og sigla (Forseti hringir.) áfram í (Forseti hringir.) frekari uppbyggingu eftir óskaplegt hrun sem var í boði ónefndra aðila.