141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

fjárhagur Ríkisútvarpsins.

[13:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr um fjárhag Ríkisútvarpsins. Því er til að svara að mennta- og menningarmálaráðuneytið fundar reglubundið með fulltrúum Ríkisútvarpsins og var síðasti fundur í júní og verður annar fundur á næstunni. Þá voru þær upplýsingar sem okkur voru gefnar þær að þó að stefndi í útgjöld umfram tekjur væru þau innan áætlunar því að Ríkisútvarpið gerir áætlun til fjögurra ára og útgjöld geta eitthvað sveiflast milli ára. Menn sáu fram á að ákveðnir kostnaðarsamir liðir mundu falla á árið í ár, þar nægir að nefna Ólympíuleikana og Evrópukeppnina í knattspyrnu, en töldu að allt væri innan marka. Síðan hef ég fengið þær fregnir, eins og hv. þingmaður, að til standi að fara í aðhaldsaðgerðir á Ríkisútvarpinu. Við munum fá greinargerð um stöðu fjárhags Ríkisútvarpsins á næstunni til að kanna hvort eitthvað hafi breyst frá þeim fundi sem við áttum með fulltrúum Ríkisútvarpsins í júní.

Hvað varðar einstakar niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðir er það rétt sem hv. þingmaður segir að í Ríkisútvarpinu ohf. er stjórn sem væntanlega mun fara yfir það hver heildarsýnin á nákvæmlega að vera. Að mínu viti er mikilvægt að þær aðgerðir sem farið verður í séu hugsaðar út frá heildarsýn þannig að þær verði ekki gerðar í einhverjum lausaskömmtum og að þær samrýmist að sjálfsögðu markmiðum okkar með Ríkisútvarpinu, sem eru að stofnunin sé bæði menningarleg og lýðræðisleg og hafi mikilvægu hlutverki að gegna í þeim efnum. Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. mun væntanlega fara yfir það á næstunni.