141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[14:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að þessi vinna trúnaðarmannahópsins sé gagnleg en það er ákaflega ódýrt að koma hingað endalaust með mikil svikabrigsl án þess að hafa fyrir því að rökstyðja orð sín, og þvert á móti horfa fram hjá (Gripið fram í.) efnisatriðum máls. (Gripið fram í: Segðu okkur satt.) Ég tel að greinargerðin svari þessu best sjálf og það þarf ekkert annað en að lesa hana. Ef menn lesa hana eins og hún er og skoða samhengi hlutanna svarar þetta mál fyrir sig sjálft. Hvernig gerir það það? Jú, menn segja að þeir gætu orðið sammála um tilteknar breytingar, sammála um að fella ákveðna hluti út úr frumvarpinu og breyta öðrum, en það sé háð því að samkomulag og ásættanleg niðurstaða náist um aðra hluti sem standa þar á móti. (Gripið fram í: Sorglegt.) (Gripið fram í.) Þetta sjá allir sem lesa greinargerðina og það þarf ekkert annað en að gera það. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að vera sammála um aðra hliðina á málinu og segjast síðan vera fullkomlega ósammála um hina hliðina. Ef málið á að ganga upp í heild sinni verður að vera eitthvert jafnvægi í þeim hlutum (Gripið fram í: Svik.) sem kallast á í þessu máli. (Gripið fram í: Svik.)

Síðan þarf ekki annað en að taka trúnaðarmennina sjálfa, þar með talinn hv. fyrirspyrjanda, á orðinu og lesa síðustu setninguna í greinargerðinni. Hvernig er hún? Þar er sérstaklega tekið fram (Gripið fram í: Lestu hana.) að þetta sé niðurstaða þessa fjögurra þingmanna, þessara fjögurra einstaklinga, hún bindi hvorki hendur flokkssystkina þeirra né flokka. Það stendur þarna (Gripið fram í.) og ég tel að þetta svari algerlega fyrir sig sjálft og að það sé verið að reyna að gera mikinn úlfalda úr mýflugu og ekkert nema til ófagnaðar. Ég hef tekið þessu vel. Ég tel að þetta sé gagnlegt, svo langt sem það nær, skýri stöðuna, sé ákveðin kortlagning á því sem menn gætu orðið sammála um, háð því að annað gangi upp, og ákveðin kortlagning á því sem því miður náðist ekki samstaða um. Svona liggur þetta mál og ég vísa algerlega til föðurhúsanna (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) þessum venjulega svikabrigslaupphlaupum (Gripið fram í.) sem eru orðin mikill plagsiður í landinu. Það kemur sér vel að það er þolinmóð ríkisstjórn sem fer ekki af hjörunum þó að hinir minni spámenn fari upp með slíkt. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt.)