141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[14:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara hæstv. ráðherra um það hverjir séu spámenn og af hvaða stærð þeir eru. (Utanrrh.: Ég er lítill spámaður.) Ég ætla hins vegar að halda því fram að það plagg sem forustumenn ríkisstjórnarflokkanna komu með og undirrituðu í vor hljóti að standa. Ég get til dæmis fullyrt að þingflokkur Framsóknarflokksins stendur á bak við það sem ég hef sagt. Það getur vel verið að það sé mismunandi, eins og ég sagði er ósamstaða innan ríkisstjórnarflokkanna, en ég hefði ekki trúað því fyrr en ég heyri það úr þingstól Alþingis að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ætlaði ekki að standa við orðin sem hann skrifaði upp á. Það stendur sem við vorum sammála um í vor og vorum sammála um í greinargerðinni sem við skiluðum til ráðherra í síðustu viku. Ég hefði haldið að orð ættu að standa. Í upphafi þings þar sem á að fara að fjalla um 176 mál, (Forseti hringir.) bæði stór og smá, hlýtur að þurfa samkomulag og samninga. Þetta er ekki gott innlegg í það. Það er ólíklegt að hægt sé að vinna með fólki sem gengur ævinlega á bak orða sinna. (Gripið fram í: Rétt.)