141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[14:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Það getur virkað í báðar áttir, frú forseti. Maður fer auðvitað að hugsa sig um yfir höfuð að reyna að gera samkomulag líka við aðila sem meðhöndla það alltaf með þessum hætti. Það er langbest að fara í þetta efnislega og ræða þetta með rökum. Tökum auðveldan og útskýranlegan hlut eins og þann að fjórmenningarnir segja: Við gætum fallist á að svonefnd 60/40%-regla hyrfi út og við gætum fallist á að 3% skerðing á veiðiheimildum í viðskiptum félli út enda sé á móti samkomulag um upphafsstöðuna í hluta 2 og nægjanlegt magn þar til að mæta þeim markmiðum sem þar átti að mæta (Gripið fram í.) enda sé þá samkomulag um kvótaþing. Það er ekki hægt að segja: Við erum sammála um það sem á að fara út en við erum ósammála um það sem á að koma í staðinn. Þetta sjá allir og þessar æfingar falla um sjálfar sig. Ég segi bara aftur: Lesi menn greinargerðina, lesi menn fyrirvarana, skoði menn samhengi hlutanna, lesi menn niðurlagsorð fjórmenninganna — og svo fremi sem þeir séu ekki hlaupnir frá þeim svarar greinargerðin fyrir sig sjálf. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að það er ekki heimilt að ræða hér um umræðuefnið hér á undan undir liðnum um fundarstjórn forseta.) (Gripið fram í: Spurning til forseta.)