141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:32]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þessi liður er skilgreindur sem raforkumál á Norðurlandi, þess vegna mun ég tala um raforkumál þó að bændur eigi vissulega skilið að fá sinn umræðutíma hér í þessum ræðustól.

Fram hefur komið að línur á þessu svæði eru gamlar og verið er að leggja þær í jörð. Sú stefna Rariks er athyglisverð að við endurnýjun á línum er stefnan að leggja þær í jörð. Það er framtíðin sem við eigum að sjálfsögðu að horfa til. Þetta er í þriðja skiptið á rúmlega tveimur áratugum sem stórfellt tjón verður á raflínum sem eru ekki í jörð. Rarik lýsti því yfir í morgun að þeir ættu í óformlegu samstarfi við Vegagerðina um að leggja raflínur í jörð meðfram vegum á þessu svæði. Það hlýtur líka að vera framtíðin.

Ef við horfum til þess hvað við viljum gera við raflínur á Íslandi og þá sjónmengun sem fylgir þeim þegar þær eru þvers og kruss um allt land er að menn taki bráðum ákvarðanir um að raflínur á Íslandi í framtíðinni verði lagðar í jörð og verði lagðar meðfram þjóðvegum. Þannig verður mun minna rask á þeim og þær verða aðgengilegar árið um kring.

Því miður virðist Landsnet ekki hrifið af þessu enda er þetta umtalsvert dýrara. En sem langtímamarkmið hljótum við að reka á eftir þeirri nefnd sem nú er að störfum við að gera úttekt á þessu máli, hvað þetta muni kosta og hvernig það gæti gengið fyrir sig.

Við horfum upp á það að stórfelldar virkjunarframkvæmdir í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum eru umdeildar en þær verða sýnu verri þegar allt þetta svæði verður sundurskorið af háspennulínum ofan jarðar líka. Ég vil einfaldlega hvetja hæstv. ráðherra til þess, eins og fram kom í svari frá Rarik, að æskilegt væri að í gangi væri formlegt samstarf milli Vegagerðarinnar, Rariks og Landsnets um línulagnir í jörðu meðfram vegum, að ráðherrann beiti sér fyrir því að slíkt formlegt samstarf fari af stað og menn skoði það af fullri alvöru að Vegagerðin og línulagnafyrirtæki í framtíðinni stefni að því að allar þessar línur, hvort sem þær eru nýjar eða gamlar, fari í jörð meðfram þjóðvegum landsins.