141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:37]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég sendi baráttukveðjur til allra þeirra á Norður- og Norðausturlandi og annars staðar á landinu sem hafa mátt glíma við afleiðingar óveðursins 10.–13. september síðastliðinn, bjargað fé og verðmætum og komið innviðum samfélagsins í gang aftur eftir hamfarirnar. Þar hafa margir lagt hart að sér og samhugur fólks á slíkum stundum sýndur í verki.

Hér hefur verið rætt um tjón sem hefur orðið, sérstaklega tjón bænda. Fjárskaðar liggja ekki fyrir, en ljóst er að tjónið er gríðarlegt. Það mun skýrast á næstu vikum hve mikið það er og mikilvægt að halda þar upplýsingum saman. Sjálfsagt er það víðar en eingöngu á Norður- og Norðausturlandi. Ég var við Þverárrétt í gær. Þar töluðu menn líka um að þar vantaði fé, höfðu fundið margt fé sem fennt hafði á því svæði. Því er ljóst að fara þarf yfir þetta mál í hinu stóra samhengi og koma til móts við það tjón sem bændur þar hafa orðið fyrir.

Ég ætla aðeins að fjalla líka um raforkumálin. Við sem erum á Alþingi og tókum þátt í baráttunni gegn einkavæðingunni og sölu á Rarik og Orkubúi Vestfjarða getum í sjálfu sér hrósað sigri yfir að hafa komið í veg fyrir þá skemmdaraðför sem þáverandi stjórnvöld voru með gagnvart þessum grunnþjónustustofnunum og þjónustufyrirtækjum eins og Rarik. Það er líka ánægjulegt að vita til þess að Árni Steinar Jóhannsson, sem var á þingi á þeim tíma og leiddi baráttuna hér gegn einkavæðingaráformunum, skuli nú vera stjórnarformaður Rariks og stýra þeirri vinnu þar. Hann sagði við mig í síma í gær: Veistu hvað, Jón, það skipti öllu máli að vera með þjálfaðan mannskap, vera með starfsstöðvar sem víðast á landinu, vera með efnivið tilbúinn til þess að geta gert við.

Þetta erum við með. Auðvitað vildum við geta gert enn betur en þetta var allt tiltækt og allir þar lögðu sig fram.

Ég vil flytja hér þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt fram fórnfúst starf í þessum efnum og (Forseti hringir.) þessi reynsla sýnir hversu öflugt raforkukerfið er. Sterkt dreifikerfi fyrir raforku vítt og breitt um landið (Forseti hringir.) er ein af grunnstoðum samfélagsins.