141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka sérstaklega hæstv. ráðherra fyrir svör hans, skýr skilaboð sem hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn, svo og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um það tjón sem varð víða um Norðurland eftir hið mikla óveður sem gekk yfir. Þessi skilaboð eru mjög mikilvæg héðan frá Alþingi. Það má í raun og veru segja að héðan frá Alþingi berist baráttukveðjur norður og jafnframt skýr skilaboð til bænda um að þeir muni fá stuðning og fá tjón sitt bætt af Bjargráðasjóði eins og gert var til dæmis vegna eldgosanna.

Aðeins vegna þess að sjóðinn ber hér á góma þá er það þannig að í reglugerð sem sett var vegna eldgosanna er talað um að bæta tjón vegna túngirðinga, sem er geysilega mikið hjá bændum. Bætt er tjón á búfé og afurðum búfjár. Hér hefur það komið fram og við getum ekkert annað gert að sjálfsögðu en það að þegar svona náttúruhamfarir ganga yfir kemur samstaðan fram. Þá stöndum við Íslendingar saman og allir vilja leggja sitt af mörkum til að bæta það tjón sem þarna er. Þessi skilaboð eru því ákaflega mikilvæg, virðulegi forseti. Þau koma héðan frá stjórnvöldum til þeirra sem eiga um sárt að binda og eiga í erfiðleikum.

Það sem hér hefur komið fram er alveg rétt. Það á margt eftir að koma fram um fjárskaða. Það fengum við að vita í morgun. Héraðsráðunautar eru að taka það saman og það getur tekið vikur eins og ég sagði.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þau skilaboð sem koma fram frá hæstv. ríkisstjórn. Hér verður staðið myndarlega að málum hvað það varðar að efla og láta það fé inn í Bjargráðasjóð sem þarf til þess að bændur og aðrir sem hafa orðið fyrir geysimiklu tjóni fái það tjón bætt eins og gert hefur verið undanfarið.