141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[14:55]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hér er alls ekki um að ræða heildarlög. Hér er fyrst og fremst tekið á meginmarkmiðum varðandi málefni innflytjenda og síðan stofnanastrúktúrnum. Þannig var ákveðið að fara í þetta. Ég átta mig ekki alveg á hvaða reglugerðir hv. þingmaður er að tala um en ég geri ráð fyrir að ég fái betri skýringar á því. Það er þó í gangi vinna og afraksturinn var sérstök skýrsla sem bæði velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið áttu aðild að þar sem fjallað er einmitt um hælisleitendur sem og kvótaflóttamenn. Heil bók var gefin út og það er verið að vinna tillögur að lagasetningu í framhaldi af því. Sú vinna er í fullum gangi í innanríkisráðuneytinu þannig að við eigum von á því að fá þær niðurstöður einhvern tímann á haustmánuðum. Þar er meðal annars fjallað um hvaða réttindi og skyldur sérstaklega þeirra sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins gilda gagnvart því hverjir koma til landsins, atvinnuleysi, dvalarleyfi o.s.frv.

Ég vænti þess að fá að vita aðeins betur hvaða reglugerðir er verið að tala um. Eitt af því sem við höfum glímt við er krafa frá ESB og dómstólum um mismunatilskipunina. Hún er mjög langt komin í vinnu, er á þingmálaskrá og kemur vonandi inn í þingið.