141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það var nefnilega þannig að Alþjóðahúsinu var lokað stuttu eftir að Fjölmenningarsetrið hóf starfsemi sína þannig að óhjákvæmilega tengdi fólk þessa tvo hluti saman þó að það kunni að hafa verið óréttlátt. Kannski var þessi mismunur hreinlega ekki nægilega skýr meðal almennings og sérstaklega meðal innflytjenda á þessu stóra svæði, höfuðborgarsvæðinu þar sem mjög margir þeirra búa. Það hefur mjög oft gerst að það vantar upp á upplýsingastreymi. Það hefur í raun ekkert komið í staðinn. Maður hefur pínulitlar áhyggjur af þessu og ég hafði sérstaklega miklar áhyggjur af því í kjölfar hrunsins hversu lítið var reynt að koma upplýsingum til innflytjenda, að rétta út arminn og láta vita hvað væri í gangi. Í sumum bönkum var meira að segja gert átak í að ræða við innflytjendur og fá þá til að flytja peningana sína af öruggum reikningum á áhættureikninga, vegna þess að þeir skildu ekki nægilega vel hvernig samfélagið okkar virkaði og treystu því sem þeim var sagt af bönkunum.

Ég fagna því að lagaramminn um þessa hluti sé styrktur og vonast til að við getum haldið umræðunni á málefnalegum nótum og ég veit að það gerir hv. þingmaður. En ég vil hvetja til þess að við gleymum því ekki að það er oft erfitt fyrir innflytjendur að fá aðgang að upplýsingum. Við þurfum að standa okkur betur í því.