141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir að það er mikilvægt fyrir okkur að hafa heildarsýn í þessum efnum, það þarf sannarlega. Hér er valin sú aðferð að flytja frumvarp til laga um málefni innflytjenda sem snúa fyrst og fremst að stjórnsýslunni. Það skiptir miklu máli, en ég hef líka tilhneigingu til að reyna að ræða þetta í því samhengi sem ég gerði og gera grein fyrir því að við erum ekki að stíga fyrstu skrefin í málefnum innflytjenda með þessu frumvarpi. Það má kannski frekar segja að við séum komin að ákveðnum þáttaskilum með því að festa þennan þátt málsins í lög, ef þetta frumvarp verður samþykkt í meginatriðum eins og það er flutt.

Ég vakti athygli á því að ríkisstjórnir á undan þessari hafa sinnt þessum málum að mínu mati prýðilega í gegnum tíðina. Eins og ég nefndi áðan voru strax árið 2004 lagðar fram ítarlegar tillögur í málefnum innflytjenda sem síðan var unnið með áfram og á árinu 2008 var samþykkt fyrsta þingsályktunin um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Þar var kveðið á um ýmis stór mál sem lutu að réttindum innflytjenda. Ég ætla ekki að fullyrða að þar hafi verið sagt síðasta orðið í þessum efnum. Það þarf örugglega að halda áfram. Aðstæður eru líka stöðugt að breytast og fjöldi innflytjenda hefur farið vaxandi, þó það hafi aðeins verið að breytast á allra síðustu árum. Þetta skapar auðvitað ný verkefni fyrir okkur í stjórnsýslunni að takast á við. Ég vil ekki líta á það sem vandamál. Það er veruleiki sem við þurfum að takast á við og horfast í augu við að getur reynt á innviði samfélaga og hefur stundum haft í för með sér átök í samfélögum. Við eigum að reyna að læra af því og koma í veg fyrir slík átök og það var hugsunin á sínum tíma með Fjölmenningarsetrinu; að læra af þeirri reynslu sem þessi litlu samfélög fyrir vestan höfðu af því að fjöldi útlendinga flutti inn í samfélögin og hafði heilmikil áhrif og breytti heilmiklu. Samfélögin lærðu síðan að takast á við þetta. (Forseti hringir.) Þetta kostar hins vegar mikið. Sveitarfélögin verða fyrir kostnaði, til dæmis vegna skólahalds. Allt þetta þurfa menn að skoða og hafa í huga.