141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega reynsla í landinu af móttöku kvótaflóttafólks eins og það er kallað í þessum málaflokki. Íslendingar hafa brugðist við ákalli um slíkt áður. Ég held að reynslan af því hafi verið býsna góð. Ég held að við séum komin með tæki og tól til að gera það nokkuð vel.

Hv. þingmaður spyr síðan um þetta tiltekna mál og hvort borist hafi beiðni um móttöku kvótaflóttafólks, sem svo er kallað, frá Sýrlandi. Sú beiðni barst í síðustu viku frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til margra landa, m.a. til Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða það ákaflega vel. Ég er mjög jákvæður gagnvart því.

Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur í mínu ráðuneyti er að taka við litlum hópi. Við höfum alltaf gert það, fyrir utan kannski einu sinni. Það er farsælast fyrir okkur að gera þetta í tiltölulega litlum skömmtum. Þarna yrði þá um fáar fjölskyldur að ræða en við mundum að minnsta kosti bregðast við svipað og aðrar þjóðir. Ég tel að það sé siðferðileg skylda okkar í hvert skipti sem slík beiðni berst að við skoðum hana til hlítar og hvort hægt sé að verða með jákvæðum hætti við henni.