141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

66. mál
[16:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum.

Ég vil geta þess strax í upphafi að frumvarp þetta er nú lagt fram í annað sinn en það var lagt fram á síðastliðnu þingi án þess að fjallað væri um það efnislega. Í stuttu máli er breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu ætlað að koma til móts við niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá því í júní 2011 í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi. Í máli þessu komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að með því að kveða á um rétt útsendra starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum sem og um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku með þeim hætti sem gert væri í framangreindum lögum, hefði Ísland brotið gegn ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.

Í ákvæði 5. gr. laganna er meðal annars kveðið á um að starfsmaður sem starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið hingað til lands á vegum fyrirtækis sem veitir þjónustu hér á landi, sem sagt svokallaður útsendur starfsmaður, vinni sér inn rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum með vinnu sinni hér á landi hjá sama fyrirtæki þannig að fyrir hvern unninn mánuð fyrstu tólf mánuðina greiðist tveir dagar á föstum launum í veikinda- og slysatilvikum. Niðurstaða EFTA-dómstólsins var sú að þetta ákvæði væri ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um störf útsendra starfsmanna þar sem í henni væri með tæmandi hætti kveðið á um starfskjör útsendra starfsmanna. Því væri ríkjum með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu óheimilt að hafa í eigin löggjöf ákvæði um ríkari réttindi fyrir þessa starfsmenn en kveðið væri á um í Evróputilskipuninni. Dómstóllinn komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að laun í veikinda- og slysatilvikum samkvæmt 5. gr. laganna gætu ekki fallið undir hugtakið „lágmarkslaun“ í skilningi tilskipunarinnar þar sem lagagreinin gerði ráð fyrir að starfsmenn fengju greidd laun samkvæmt ráðningarsamningi í veikinda- og slysatilvikum en ekki miðað við lágmarkslaun. Dómstóllinn tók hins vegar ekki afstöðu til þess hvort réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum félli almennt undir hugtakið lágmarkslaun í skilningi tilskipunarinnar.

Hæstv. forseti. Í frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæði 5. gr. laganna verði breytt þannig að í stað þess að kveða á um rétt útsendra starfsmanna til fastra launa í veikinda- og slysatilvikum verði kveðið á um rétt til kjarasamningsbundinna launa í viðkomandi starfsgrein í réttu hlutfalli við starfshlutfall þeirra hverju sinni. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að með kjarasamningsbundnum launum í viðkomandi starfsgrein sé átt við laun samkvæmt kjarasamningi á því svæði sem samningurinn tekur til miðað við átta stunda dagvinnu eða 40 klukkustunda á viku miðað við fullt starf í viðkomandi starfsgrein.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu en þar er undirstrikað að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins kveða á um lágmarkskjör á innlendum vinnumarkaði fyrir alla launamenn í hlutaðeigandi starfsgrein á því svæði sem viðkomandi samningur tekur til og er í því sambandi vísað til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda frá 1980.

Í ákvæði 7. gr. umræddra laga er kveðið á um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku umræddra starfsmanna. Í þessu efni var það einnig niðurstaða EFTA-dómstólsins að hér væri kveðið á um ríkari rétt útsendra starfsmanna hvað varðar starfskjör þeirra en kveðið væri á um í tilskipun Evrópusambandsins um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Því væri ekki heimilt að gera þá kröfu til erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til starfa hérlendis að tryggja þá með þeim hætti sem umrætt ákvæði laganna gerði ráð fyrir. Í ljósi þessarar niðurstöðu EFTA-dómstólsins er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæði 7. gr. laganna verði fellt brott.

Hæstv. forseti. Þegar umrædd lög voru samþykkt á Alþingi árið 2007 var markmið þeirra að tryggja erlendu launafólki þau réttindi og kjör sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, þar á meðal að því er varðar erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands í tengslum við veitta þjónustu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Að þessu markmiði er enn stefnt þótt Eftirlitsstofnun EFTA hafi gert athugasemdir við lögin eins og þau voru samþykkt hér. Þegar hefur verið fallist á ýmsar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við umrædd lög og vegna þeirra voru gerðar ákveðnar breytingar á lögunum í júní árið 2010. Hins vegar var litið svo á að athugasemdir Eftirlitsstofnunarinnar við þau ákvæði sem hér eru til umræðu væru þess eðlis að bera þyrfti þær undir EFTA-dómstólinn til að fá úr því skorið hvort efni ákvæðanna gengju gegn umræddri tilskipun. Byggði sú ákvörðun einkum á þeirri staðreynd að lengi hefur verið litið á rétt launafólks til launa í forföllum vegna veikinda eða afleiðinga slysa sem hluta lágmarksréttinda launafólks á innlendum vinnumarkaði.

Vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins er ljóst að gera verður breytingar á umræddum ákvæðum laganna. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að breytingarnar gangi ekki lengra en nauðsyn ber til að teknu tilliti til niðurstöðu dómstólsins og tel að það hafi tekist. Tekið skal fram að breytingarnar eru lagðar til að höfðu samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.