141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2012 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

98. mál
[16:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef nú framsögu fyrir er sömuleiðis leitað heimildar Alþingis til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Að þessu sinni er númer þeirrar ákvörðunar 55/2012. Sú vélar um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn en þar er mælt fyrir um frjálsa fjármagnsflutninga. Í þessu felst að inn í hann verður felld tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum.

Í þessari tilskipun er mælt fyrir um að fyrirtæki skuli greiða reikninga innan 60 daga nema þá að sérstaklega sé um annað samið og ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt. Ef um er að ræða opinbera aðila sem kaupa vöru og þjónustu ber þeim hins vegar að greiða innan 30 daga og í því tilviki er það aðeins í undantekningartilvikum sem heimilt er að fresturinn fari upp í 60 daga. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að fyrirtæki skuli almennt eiga rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar og þau geti krafið um innheimtukostnað og þá er sömuleiðis í tilskipuninni kveðið á um lágmarksálag vegna álagningar svokallaðs vanefndaálags.

Þessi innleiðing kallar á breytingar á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sömuleiðis á innheimtulögum, nr. 95/2008, og fleiri lögum. Ég vil að það komi skýrt fram að líklegt er að það þurfi sömuleiðis að setja sérstök lög til þess að innleiða ákvæði tilskipunarinnar að fullu. Stefnt er að því að hæstv. ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar leggi fram nauðsynleg lagafrumvörp á þessu þingi, og eins og í því fyrra máli sem ég hef hér reifað er hvorki gert ráð fyrir að þær lagabreytingar sem sá hæstv. ráðherra mun mæla fyrir muni hafa neinn umtalsverðan kostnað í för með sér né heldur stjórnsýslulegar afleiðingar á Íslandi.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni sem hinni fyrri vísað til hv. utanríkismálanefndar.