141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 115/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

100. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari óska ég eftir því við hv. Alþingi að það aflétti stjórnskipulegum fyrirvara sem settur var vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, en hann fjallar um umhverfismál. Sömuleiðis að inn í samninginn verði steypt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB. Hún fjallar um ákaflega merkilegt mál sem er geymsla koltvísýrings í jörðu. Með þessum gerningi er mælt fyrir um að settar verði rammareglur um það hvernig geyma beri koldíoxíð í jarðlögum. Tilgangurinn er að draga úr neikvæðum áhrifum þess á umhverfi og heilsu manna. Tilskipunin gildir þó ekki um verkefni í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni, ef um er að ræða minna en 100 kílótonn koldíoxíðs.

Samkvæmt þessari tilskipun hafa aðildarríkin rétt til að ákveða á hvaða svæðum geymslan má fara fram en þau geta líka bannað hana með öllu alls staðar eða á einstökum svæðum sem þau svo kjósa. Ef aðildarríkin telja að framkvæma þurfi einhvers konar rannsóknir til að meta hvaða svæði komi til greina sem geymslusvæði, t.d. að kanna iður jarðar á þeim stöðum, ber þeim fortakslaust að tryggja að engar slíkar rannsóknir fari fram án rannsóknarleyfis. Þetta tel ég nauðsynlegt að slá í gadda strax í framsögu minni.

Nú höfum við nýlega samþykkt breytingar á lögum á Alþingi sem hafa leitt til þess að til er orðið nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Innan þess er núna verið að skoða hvernig framtíðarskipan geymslu koldíoxíðs eða heimildar til kolefnisgeymslu skuli háttað á Íslandi. Ráðuneytið mun náttúrlega hafa samráð við önnur stjórnvöld og aðra sem málið kann að varða áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Meðal þeirra þátta sem þarf að taka afstöðu til er hvort og þá að hvaða marki starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar verði heimiluð og þá sömuleiðis, ef hún verður heimiluð, á hvaða svæðum. Það er vitaskuld í þessu máli tekið skýrt fram að óheimilt er að bæta úrgangi eða öðrum efnum við koldíoxíðið nema þeim sem uppfylla þar til greind skilyrði sem rakin eru í þeim fylgiskjölum sem tillögunni og tilskipuninni fylgja.

Þeim sem rekur eða ber ábyrgð á geymslusvæði ber að halda skrá yfir magn og samsetningu geymdra efna og það er svo lögbærra yfirvalda í hverju aðildarríki að tryggja að nauðsynlegu eftirliti sé sinnt á geymslusvæðum og sömuleiðis að halda allar nauðsynlegar skrár, bæði um magn og samsetningu efna sem eru geymd á tilteknum svæðum.

Í 2. mgr. 103. gr. EES-samningsins er gert ráð fyrir að stjórnskipulegum fyrirvörum við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sé að jafnaði aflétt áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að ákvarðanir voru teknar. Þess vegna flyt ég þessa þingsályktunartillögu þó að ekki liggi fyrir hvenær hæstv. ráðherra leggur fram frumvarp til þeirra lagabreytinga sem að þessari innleiðingu snúa.

Ég legg til, herra forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.