141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Starfsemi smálánafyrirtækja hefur eðlilega sætt harðri gagnrýni. Óhófleg gjaldtaka, dæmi um árlega gjaldtöku allt að 600% hlýtur auðvitað að vekja alla til umhugsunar um hvort ekki sé nauðsynlegt að setja þessari starfsemi skorður og það er sannarlega nauðsynlegt. Þess vegna var það fagnaðarefni á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun þegar fram kom hjá fulltrúum atvinnuvegaráðuneytisins að til athugunar væri að setja hámark á árlegan kostnað af lánastarfsemi sem þessari. Í 14 af 27 ríkjum Evrópusambandsins eru neytendur varðir með einhvers konar hámarki á þann kostnað sem hægt er að leggja á slíkt. Ég fagna þeim hugmyndum sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar og hvet til þess að þá nái menn saman um það þvert á flokka á Alþingi að verja neytendur með því að setja starfsemi á fjármálamarkaði eðlilegar skorður. Það hefur skort á neytendavernd hjá okkur á Íslandi. Við þurfum sannarlega að gera betur þar og í því frumvarpi sem von er á um neytendalán. Þar eru líka tækifæri til að taka á ýmsum öðrum þáttum. Ég vil þar sérstaklega nefna upplýsingagjöf til fólks sem tekur verðtryggð íslensk lán.

Við höfum því miður látið það viðgangast árum saman að ungu fólki sem ekki er allt of vel að sér í fjármálum séu sýndir villandi útreikningar sem unnir eru af sérfræðingum um þróun lána þeirra eftir lágum verðbólgutölum sem allir sem eitthvað vita um hagsögu Íslands vita að ekki munu standast heldur muni lánin hækka miklu meira en útreikningarnir sýna. Þar er því í raun verið að fegra framtíðina og hvetja (Forseti hringir.) ungt fólk til að reisa sér hurðarás um öxl. Það er mikilvægt að við í þinginu setjum lagaskorður við því líka í vetur.