141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Nú styttist í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Þann 20. október næstkomandi fer fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og þá verður þjóðin líka spurð um afstöðu til sex mikilvægra atriða, álitaefna meðal annars um auðlindir um þjóðareign, um vægi atkvæða og hvort tiltekið hlutfall kjósenda geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Atkvæðagreiðslan hefur verið í undirbúningi um langa hríð með nokkrum hléum í þingsölum en það hefur ekki gengið áfallalaust, eins og menn vita, fyrir meiri hluta þings að fá að segja álit sitt á málinu og sýna vilja sinn í verki hvað varðar afgreiðslu stjórnarskrármálsins og aðkomu þjóðarinnar að henni.

Ég ætla aðeins að rifja upp aðdragandann að atkvæðagreiðslunni og aðkomu Sjálfstæðisflokksins að málinu því að fyrir kosningarnar 2009 setti sá flokkur Íslandsmet í málþófi með fleiri hundruðum athugasemda um fundarstjórn forseta og andsvara. Þess vegna var ekki hægt að kjósa um stór mál eins og auðlindir í þjóðareign (Gripið fram í.) og aðkomu kjósenda að því að kalla fram þjóðaratkvæði í kosningunum 2009. Á þessu kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið áfram í því hindrunarhlaupi sem hann setti upp en 24. maí síðastliðinn, eftir 50 klukkustunda umræður, varð flokkurinn loksins að viðurkenna sig sigraðan og ákveðið var að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu með 35:15 atkvæðum.

En hvað gerir þá hinn ágæti Sjálfstæðisflokkur? Jú, hann hefnir þess í héraði sem hallast á í Alþingi. Í gær reyndi Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur að koma í veg fyrir að Reykvíkingar fengju að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og lagði fram tillögu um það að afgreiðslu undirbúningsins yrði frestað. Það var sem betur fer fellt. Ég vil óska Reykvíkingum (Forseti hringir.) til hamingju með að Sjálfstæðisflokkurinn er líka í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, ekki aðeins á Alþingi. (Forseti hringir.) Megi það lengi vera svo.