141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina athyglinni að frétt sem birtist í Morgunblaðinu í morgun varðandi aflandskrónur og það að svo virðist vera að tveir aðilar hafi fengið að yfirgefa landið með um 18 milljarða nú í sumar, annar er Deutsche Bank, sem fór með mjög stóran hluta af upphæðinni eða um 15 milljarða, og hinn er félag í höndum erlendra aðila.

Í dag hefur verið upplýst að Seðlabankinn svari í engu þegar eftir því er leitað hverjar verklagsreglur bankans eru, sem er mjög einkennilegt því að ég tel að Seðlabanki Íslands sé í raun og sann að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með því að leyfa sumum að taka fé út úr snjóhengjunni, fá gjaldeyri og yfirgefa svæðið, á meðan öðrum er neitað um það. Það er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að svo virðist vera að ákvörðun Seðlabankans sé ekki byggð á lögum og varað hefur verið við því að aðilar sem mismunað er með þessum hætti kunni að höfða mál á hendur Seðlabankanum vegna þess að ákvörðunartakan er byggð á reglugerð. En reglugerðarákvæði er ekki nægilega sterkt þegar kemur að þessum málum, það þarf að eiga sér lagastoð.

Virðulegi forseti. Ég bendi á þessar staðreyndir því svo virðist vera að mikil leynd ríki í Seðlabankanum og þær verklagsreglur sem vísað er í hafa ekki verið birtar opinberlega. Við erum að reyna að ná okkur á strik eftir mikið bankahrun. Þjóðin í gjaldeyrishöftum og þarna fer ein ríkisstofnun, sem lýtur stjórn eins seðlabankastjóra, með mikið vald og brýtur jafnvel gegn jafnræði þegnanna. (Gripið fram í: Hneyksli.)