141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að fagna, eins og nokkrir aðrir þingmenn hafa gert hér, riti Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gengis- og gjaldmiðilsmálum. Það er gott að menn hafi sest niður og skoðað þessi mál en maður þarf hins vegar ekki að vera sammála öllu sem þar stendur. Ég tel að ýmislegt vanti upp á til dæmis rökstuðninginn fyrir því að það séu eingöngu þessir tveir kostir sem komi til greina. Ef við skoðum kafla númer 23 þar sem fjallað er um hvaða gjaldmiðlar eru raunverulegir kostir fyrir Ísland þá kemur í ljós að bæði Bandaríkin og evrusvæðið bera höfuð og herðar yfir hin fimm myntsvæðin sem til skoðunar eru og þar eru þessir tveir gjaldmiðlar jafnsettir gagnvart því hversu mikinn gengisstöðugleika þeir mundu hafa gagnvart okkar málum hér.

Hins vegar var kallað eftir því í umræðunni hvernig við sem höfum talað fyrir því að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka gætum rökstutt þá fullyrðingu. Það er mjög einfalt. Evrópusambandið og aðild að því snýst ekki bara um evruna. Fyrir utan það hefur komið fram að við uppfyllum ekki Maastricht-skilyrðin, við tökum ekki upp evruna á morgun. Því er tómt mál að tala þannig um aðildarumsókn og það aðlögunarferli sem við erum í eingöngu út frá evrumálum. Jafnframt hefur það komið fram í fjölmiðlum í gær, í ummælum frá seðlabankastjóra, að ekki er útséð um það hvernig evrusamstarfinu muni vegna næstu árin. Það er því ekki hægt að svara því þannig til að að sjálfsögðu eigi að halda áfram veginn með það að markmiði að ganga í Evrópusambandið eingöngu til þess að taka upp evru. Það eru mörg önnur atriði sem koma þar til skoðunar. Við erum þar að tala um fullveldi þjóðarinnar. Við erum þar að tala um okkar helstu náttúruauðlindir. Við erum rík þjóð. Við eigum miklar náttúruauðlindir. Ætlum við ekki einfaldlega að stjórna okkar málum sjálf varðandi þær auðlindir? Ég tel einfaldlega að það sé hagfelldast fyrir þjóð okkar til framtíðar og þess vegna er ég áfram og enn frekar á þeirri skoðun að við eigum að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Þessi skýrsla breytir engu þar um.

Hins vegar þurfa þeir þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, sem hafa staðið (Forseti hringir.) hér í þessum stól og ítrekað talað niður íslensku krónuna að koma hingað upp og gera grein fyrir því hvernig sú skoðun (Forseti hringir.) stenst rök, sérstaklega út frá þessari skýrslu.