141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan að líklega yrði kosið 20. október næstkomandi og fékk frammíkall um það. Hvað þýðir orðtakið sem er rakið til lausavísu eftir Pál lögmann Vídalín frá því fyrir tæpum þremur öldum, að menn hefni þess í héraði sem hallast á í Alþingi? Það þýðir að menn séu kannski djarfari á heimavelli en utan hans. Það þýðir líka að menn geti ekki hætt, ekki heldur þegar þeir hafa orðið undir í lýðræðislegri (Gripið fram í.) atkvæðagreiðslu og ákvarðanatöku (Gripið fram í.) eins og hér hefur verið. Það má sannarlega segja hvort tveggja um Sjálfstæðisflokkinn. Þegar litið er til framgöngu fulltrúa flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í gær og lesin er bókunin sem þar var lögð fram með tillögunni um að hætta undirbúningi að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið í stærstu og fjölmennustu byggð landsins þá sér maður hvert innrætið er. Þar segir, með leyfi forseta:

„Komið hefur í ljós að svo illa hefur verið staðið að undirbúningi atkvæðagreiðslunnar af hálfu þingmeirihlutans á Alþingi að ólíklegt er að hún fullnægi formskilyrðum laga.“

Ætlar einhver að kæra atkvæðagreiðsluna fyrir fram? Það skyldi þó ekki vera.

Í öðru lagi segir að ekki verði annað séð en að innanríkisráðherra hafi farið út fyrir valdheimildir sínar með því að boða til atkvæðagreiðslunnar á tilteknum degi án fullnægjandi heimildar Alþingis.

Síðan segir að lokum, frú forseti:

„Óviðunandi er að borgarstjórn Reykjavíkur annist og beri ábyrgð á framkvæmd atkvæðagreiðslu sem mikil óvissa ríkir um hvort samræmist gildandi lögum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka því ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.“

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er gott að þessi tillaga var felld og að Sjálfstæðisflokkurinn er í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Megi hann vera það sem lengst og víðar.