141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Framsóknarflokkurinn hefur ætíð lagt mikla áherslu á atvinnumál og að atvinna sé grunnurinn undir velferð landsmanna og allri okkar samfélagsneyslu. Þegar hæstv. forsætisráðherra kemur síðan hingað og talar um að ríkisstjórnin hafi í hvívetna og á öllum sviðum verið að vinna í því að bæta umgjörð atvinnulífsins verður maður nær orðlaus. Það er hægt að taka nýlegt dæmi úr ferðaþjónustunni þar sem hugmyndir ríkisstjórnarinnar snúa að því að hækka skatt á gistingu þannig að verð á henni yrði með því hæsta sem gerist í allri Evrópu. Það kviknar einhvers staðar ljós, það er einhvers staðar vonarneisti í því að byggja upp atvinnu og sækja fram, ráðast í fjárfestingar í atvinnu, eins og er í ferðaþjónustunni þar sem við förum vítt og breitt um landið. Mjög margir aðilar hafa verið að skoða möguleika á því að byggja við gistirými. Oft og tíðum eru þetta einmitt einyrkjafyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki og annað því um líkt. Það kviknar örlítið ljós — og hvað gerir ríkisstjórnin? Hún gerir allt sem hún getur til að slökkva þetta ljós. Því miður höfum við séð þetta í allt of ríkum mæli hjá sitjandi ríkisstjórn.

Við sáum þetta líka á Grundartanga þegar ríkisstjórnin hugðist með síðustu fjárlögum skattleggja fyrirtæki þar um þrefaldan hagnað þess, einn stærsta vinnustaðinn á Akranesi. Það skortir algerlega á skilning þegar kemur að atvinnumálum.

Hins vegar er hægt að segja eitt. Það býr kraftur í þessari þjóð og þegar maður fer um er ríkur vilji hjá fólki vítt og breitt um landið sem rekur lítil, meðalstór og stór fyrirtæki til að sækja fram og veita fólki atvinnu. Það er á engan hátt hægt að segja að sá kraftur, sá vilji og sá þróttur (Forseti hringir.) sem býr í þessu fólki sé til kominn vegna verka ríkisstjórnar Íslands.