141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

staða atvinnumála.

[15:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um atvinnumál, þá sérstaklega í tengslum við skatta og gjöld og hvaða stefnu stjórnvöld hafa í því efni. Ég verð þó að segja að ég er orðinn pínu þreyttur á þessari röngu umræðu, umræðu sem engin innstæða er fyrir, um eilífðarfrost og fjárfestingu sem er búin að vera á ís í mörg ár í sjávarútvegi. Hvers konar rugl er þetta þegar gögnin blasa við hvar sem litið er?

Það er sérstaklega litið til Vestmannaeyja þar sem hvert fyrirtækið af öðru skilar í dag þvílíkum methagnaði að annað eins hefur ekki sést, þar sem nýtt skip upp á milljarða króna lagðist að bryggju í Eyjum í vor (Gripið fram í.) þar sem stærsta fjárfesting í sjávarútvegi árum eða áratugum saman átti sér stað síðasta sumar. Önnur álíka fjárfesting sem stendur yfir er mjög umdeild í samfélaginu í dag.

Sjávarútvegurinn hefur verið að fjárfesta af miklum krafti og það er hvergi meiri bjartsýni í nokkurri atvinnugrein eins og kom meðal annars fram í könnun Gallups fyrir nokkrum vikum þar sem varla hafði mælst önnur eins bjartsýni í nokkurri atvinnugrein. Við skulum halda okkur við staðreyndir í þessu eins og reyndar flestu öðru.

Það er talað um að háir skattar, skattar sem við erum með á Íslandi, hvetji til undanskota. Er það staðreyndin? Liggur eitthvað slíkt fyrir? Eru einhver gögn til um það? Það held ég ekki. Við vitum hins vegar undan hvaða skattprósentu menn voru að svíkjast fyrir hrun, það var í lægstu skattprósentunum, það var í 10% skattinum. Hverjir voru þá að forða sér undan skattgreiðslum aðrir en þeir sem voru með lægstu gjöldin? 10% skatturinn, fyrirtækjaskatturinn sem finnst hvergi nokkurs staðar í dag eins og hann var hér á landi fyrir þrem árum, það er hvergi hægt að finna svo lága prósentu í dag þótt leitað sé víða.

Það er ekkert samband á milli undanskota, svartrar vinnu og skattprósentu. Engin gögn hafa verið lögð fram um það og ef þau eru til óska ég eftir að (Forseti hringir.) málshefjandi leggi þau fram. (Gripið fram í: … til dæmis.)